Í liðnum mánuði lauk félagið Fly Play við útgáfu á breytanlegu skuldabréfi til tveggja ára að fjárhæð 23 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 2,8 milljarða króna, en fjármögnunin var stækkuð um þrjár milljónir dala vegna umframeftirspurnar fjárfesta. Skuldabréfin bera 17,5 prósent vexti en þeir fjárfestar sem lögðu félaginu til fjármagn, sem eru á annan tug talsins, voru einkum stærstu hluthafar Play ásamt sérhæfðum lánasjóði í rekstri Ísafold Capital Partners sem keypti alls um fjórðung af heildarstærð útgáfunnar.
Með þessari útgáfu á breytanlegu skuldabréfi þá nemur sú fjárhæð sem Play hefur sótt sér frá innlendum fjárfestum alls um tuttugu milljarðar frá því að félagið var stofnað á árinu 2021. Mikið tap hefur verið á rekstri félagsins frá þeim tíma, meðal annars vegna erfiðra ytri aðstæðna, og stjórnendur eru af þeim sökum núna að minnka verulega umsvifin – á sínum tíma stóð til að fara með flotann í 18 til 20 vélar – samhliða því að hætta alfarið flugi til Bandaríkjanna og leigja frá sér vélar til annarra flugrekenda.

Á öðrum fjórðungi þessa árs var rekstrartap (EBIT) félagsins um 9,6 milljónir dala, mun meira en á sama tíma fyrir ári, en áætlanir gera ráð fyrir minna tapi yfir vetrartímann og félagið muni skila hagnaði á árinu 2026. Í lok júní var laust handbært fé Play aðeins um 3,4 milljónir dala og félagið þurfti því augljóslega að sækja sér aukið fjármagn frá fjárfestum.
Er þetta nægjanlegt fjármagn, um 23 milljónir dala, sem Play er núna búið að tryggja sér eða megum við eiga von á því að félagið þurfi aftur að leita til fjárfesta áður en langt um líður?
„Við höfum farið yfir það áður að reksturinn hefur ekki gengið eins og við vorum að vonast eftir og tapið hefur verið umtalsvert. Þess vegna var mikilvægt fyrir okkur að hætta að gera það sem hefur gengið illa, sem var Ameríkuflugið. Þess í stað munum við einbeita okkur að sólarlandafluginu frá Íslandi sem hefur ávallt gengið vel. Þá erum við með eftirsóttar flugvélar sem við erum að koma í arðbær verkefni,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri og einn stærsti hluthafi flugfélagsins, í ítarlegu viðtali við Innherja.
„Erum að koma félaginu í var“ með niðurskurði og breyttu viðskiptalíkani
Hann bætir við að í ljósi þess að frammistaðan sé búin að vera undir væntingum hafi verið nauðsynlegt að styrkja fjárhaginn. „Við erum ótrúlega þakklát að finna fyrir þeirri miklu trú sem hluthafar og fjárfestar hafa á okkur. Framtíðin er því býsna björt, mikill afkomubati í kortunum og hagnaður á næsta ári. Það kæmi mér verulega á óvart ef þessi fjármögnunarlota væri ekki sú síðasta í langan tíma,“ segir Einar Örn.
Félagið er ekki að fara að draga saman seglin frekar en kynnt hefur verið. Við gerðum þær breytingar fyrr í sumar fyrir þá flugáætlun sem tekur við eftir október.
Félög sem Einar Örn er eigandi að, annaðhvort alfarið eða í samfloti með öðrum fjárfestum, stóðu að baki kaupum fyrir samtals 200 milljónir króna í skuldabréfaútgáfunni í síðasta mánuði. Þá keyptu félög sem Elías Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar Play og einn af stofnendum félagsins, tengist fyrir samanlagt um 385 milljónir króna. Þeir Einar Örn og Elías Skúli höfðu upphaflega gert yfirtökutilboð í félagið snemma í sumar en féllu síðar frá þeim áformum. Til viðbótar við aðkomu þeirra og lánasjóðsins MF3 í stýringu Ísafoldar þá voru aðrir stærstu þátttakendur í kaupum á bréfunum meðal annars Birta lífeyrissjóður og fjárfestingafélagið Stoðir.
Að tveimur árum liðnum verður eigendum bréfanna heimilt að umbreyta þeim í hlutafé á genginu ein króna á hlut eða fá lánið greitt til baka ásamt uppsöfnuðum vöxtum. Hlutabréfaverð Play, sem skilaði met einingatekjum í ágústmánuði, stendur núna í 43 aurum á hlut en markaðsvirði félagsins er í kringum 800 milljónir króna.
Stjórnendur Play vinna núna að því að hrinda í framkvæmd áður boðuðum breytingum á viðskiptalíkandi félagsins. Flugi til Norður-Ameríku verður hætt frá og með október 2025 og borgaráfangastöðum í Norður-Evrópu fækkað verulega samhliða, eins og meðal annars flugi til London, París, Berlínar og Amsterdam. Af þeim tíu vélum sem Play er með í rekstri munu fjórar sinna flugi frá Íslandi, einkum til sólarlandastaða, á meðan hinar sex vélarnar verða leigðar í arðbær verkefni til annarra flugrekenda.
Þið hafið verið að ráðast að undanförnu í talsverðar uppsagnir, niðurskurð á leiðarakerfinu og flutning á flugrekstrarleyfinu frá Íslandi og til Möltu. Sjáið þið til lands í þessu breytingarferli?
„Það er rétt að við höfum verið að breyta um áherslur síðasta árið sem miða allar að því að tryggja rekstur félagsins til framtíðar og að Play verði áfram fyrsti valkostur fyrir Íslendinga sem eru á leið erlendis í sólina. Fyrst kynntum við að dregið yrði úr Ameríkufluginu og lögð meiri áhersla á sólarlandaflug. Í framhaldinu sögðum við snemma í sumar að Ameríkuflugið yrði alveg lagt af og frekari áhersla lögð á leiguverkefni. Við erum enn að starfrækja frekar stórt leiðarkerfi, meðal annars að fljúga til New York, Boston og Baltimore en því lýkur í október. Frá og með þeim tíma verður íslenski hluti félagsins töluvert minni en var,“ útskýrir Einar Örn.
Það má alveg halda því fram að meiri breytingar í átt að núverandi rekstrarlíkani hefðu mátt koma fyrr, eftir á að hyggja.
Hann bætir hins vegar að vélarnar fjórar sem á að starfrækja frá Íslandi verði með sem fyrr með íslenskar áhafnir á íslenskum kjarasamningum.
„Fjárhagslega best“ að notast við íslenskar áhafnir í flug frá Íslandi
„Það er samt aldrei þannig að slíkar umbreytingar séu sársaukalausar og það hefur verið erfitt að sjá að baki mörgu góðu fólki og leiðinlegt að kveðja, að minnsta kosti tímabundið, ýmsa skemmtilega áfangastaði. En öllu máli skiptir að við erum að koma félaginu í var með þessu, erum hætt að sinna þeim hluta starfseminnar sem hefur verið erfiður rekstrarlega og ég er afskaplega spenntur að fá að kynna loks fyrir fólki hinn mikla viðsnúning í rekstri sem er í kortunum. Við erum að sjá fram á að afkoman á þriðja ársfjórðungi verði áþekk við það sem var í fyrra og búumst við miklu minni taprekstri yfir vetrartímann. Þá gerum við ráð fyrir að skila hagnaði á árinu 2026.“
Aðspurður hvort það frekari niðurskurður og fækkun áfangastaða sé í kortunum svarar Einar Örn því neitandi.
„Félagið er ekki að fara að draga saman seglin frekar en kynnt hefur verið. Við gerðum þær breytingar fyrr í sumar fyrir þá flugáætlun sem tekur við eftir október,“ segir hann og boðar stærra leiðarakerfi næsta sumar með nýjum áfangastöðum sem verði kynntir fljótlega.

Þegar það var fyrst kynnt um breytingar á viðskiptalíkani Play, og draga verulega úr flugi til Bandaríkjanna, stóð til að starfrækja sjö vélar frá Íslandi – og halda því opnu að bjóða upp á flug yfir Atlantshafið yfir sumartímann. Í ljósi aukins tapreksturs hefði ekki átt að draga saman seglin í starfseminni hér heima mun fyrr?
„Ákvörðunin um að hætta flugi til Bandaríkjanna og að minnka starfsemina hér heima var tekin í kjölfar ítarlegrar greiningar á arðsemi og áhættu. Það má alveg halda því fram að meiri breytingar í átt að núverandi rekstrarlíkani hefðu mátt koma fyrr, eftir á að hyggja. Það er þó ekki alveg einfalt að gera miklar breytingar á stuttum tíma, enda krefst það niðurfellinga á áður kynntum flugum svo það er mikilvægt að gera ekki miklar breytingar að óathuguðu máli. Við teljum hins vegar að við höfum nú fundið rétta jafnvægið með fjórar vélar frá Íslandi og sex vélar í ACMI-útleigu. Þessi skipting skapar stöðugri rekstrargrunn og minni sveiflur en áður,“ að sögn Einars Arnar.
Í fjárfestakynningu sem Play sendi frá sér í júní í tengslum við boðað yfirtökutilboð kom meðal annars fram að núverandi leigusamningar á vélunum tíu, sem eru á afar hagstæðum kjörum, væru í gildi frá þremur árum og tíu mánuðum og til allt að níu ára og ellefu mánaða. Talið er að þessir samningar spari félaginu, ef borið er saman við núgildandi verð á sambærilegum leigusamningum, samtals í kringum 90 milljónir dala yfir allt tímabilið.

Þá er útlistað í kynningunni hvernig flug Play á Atlantshafsmarkaði hefur skýrt tapreksturinn á undanförnum tveimur árum en samanlagt nemur tap af þeirri starfsemi nærri 60 milljónum dala (tölur fyrir 2025 eru byggðar á áætlunum).
Um mitt þetta ár var fjöldi stöðugilda hjá Play, bæði hér á Íslandi og í erlendum dótturfélögum, yfir 500 talsins. Hvað áætlið þið að það verði mikil umsvif í starfsmannafjölda hér á landi eftir um tólf mánuði? Er ekki ljóst að félagið ætlar sér að færa starfsemina sem mest yfir í dótturfélögin á Möltu og í Litáen til að minnka rekstrarkostnað?
„Það er eðlilegt að starfsmannahald taki breytingum í takt við umfang rekstursins og hvernig flugáætlunin þróast hverju sinni,“ segir forstjórinn. Hann ítrekar sem fyrr að Play muni áfram halda úti fjórum vélum frá Íslandi með íslenskum áhöfnum og starfsfólki á íslenskum kjarasamningum enda sé það lykilatriði í því að geta boðið Íslendingum upp á gott framboð af flugi héðan.
„Væru margir kostir samfara“ afskráningu úr Kauphöllinni
„Á sama tíma er dótturfélagið á Möltu mikilvægt tæki til að byggja upp hagkvæmari rekstur og nýja tekjulind í gegnum ACMI-markaðinn, sem gerir félaginu kleift að nýta sveigjanleika og aðlaga sig að breyttum aðstæðum í greininni. Við gerum ráð fyrir að störf á Íslandi verði áfram mikilvægur og varanlegur hluti af starfseminni til lengri tíma, enda liggja þar rætur félagsins og þar er mikil sérþekking til staðar. Enn er þó nokkuð um að fólk starfi hjá Play hér á landi en sinni verkefnum á vegum maltneska félagsins, sem tengist því að reksturinn er nú byggður upp á fleiri stoðum en áður.“
Play hefur vissulega glímt við margar ófyrirsjáanlegar áskoranir frá stofnun félagsins – heimsfaraldur, stríðsátökin í Úkraínu, hátt olíuverð um tíma og eldsumbrotin á Reykjanesskaga – en í ljósi erfiðleikanna í rekstri undanfarin ár og viðbragða ykkar við þeim má þá ekki segja að það sé borin von að ætla sér að starfrækja lággjaldaflugfélag með höfuðstöðvar og aðalstarfsemi á líklega dýrasta vinnumarkaði í heimi?
„Það er rétt að rekstrarumhverfi á Íslandi er krefjandi, meðal annars vegna launakostnaðar. Hins vegar hefur Play mótað sér nýtt viðskiptalíkan sem gerir félaginu kleift að nýta samkeppnishæfari rekstrarumhverfi í gegnum dótturfélög sín erlendis, á sama tíma og félagið heldur áfram að hafa sterka viðveru á Íslandi. Launakostnaður er vissulega hár á Íslandi, en við erum að starfrækja flugáætlun fyrir Íslendinga,“ útskýrir Einar Örn.
Skynsamlegast að haga eldsneytisvörnum í takt við keppinauta
Hann bætir við það komi „fjárhagslega best“ út fyrir Play að notast við áhafnir á Ísland í þau flug. „Annars þyrftum við að reiða fram dagpeninga og útvega gistingu ef við myndum notast við áhafnir frá öðrum löndum. Með þessari blöndu tryggjum við bæði sveigjanleika og hagkvæmni í rekstrinum.“
„Var skýr krafa frá lykilfjárfestum“ að Play yrði áfram skráð á markað.
Þegar greint var frá því í sumar að ráðast ætti í útgáfu breytanlega skuldabréfsins var jafnframt fallið frá fyrri áformum, sem stjórnendur Play höfðu áður tilkynnt um í júní, að gera yfirtökutilboð í allt hlutafé félagsins á genginu ein króna á hlut og taka það af markaði. Sumir fjárfestar í hluthafahópnum, eins og meðal annars verðbréfasjóðir, höfðu þannig gert það að skilyrði fyrir aðkomu sinni að félagið yrði enn skráð í Kauphöllina líkt og það hefur verið samfellt frá árinu 2021.
En má ekki færa góð rök fyrir því að núverandi skráning á Aðalmarkað þjónar ekki hagsmunum félagsins miðað við þann stað sem það er núna komið á – og jafnvel vinnur gegn þeim með meiri neikvæðri umræðu um félagið en ella sökum meðal annars sveiflna á hlutabréfaverðinu í afar litlum viðskiptum?
„Fyrri áform gerðu ráð fyrir afskráningu félagsins og það væru margir kostir samfara slíku,“ viðurkennir Einar Örn, og heldur áfram: „Einkum lægri kostnaður, minna flækjustig og færri ástæður til að skrifa fréttir um félagið, sem oft byggjast á litlum og jafnvel úreltum upplýsingum. En það var hins vegar skýr krafa frá lykilfjárfestum að félagið héldi áfram skráningu á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.“
Forstjóri Play bendir á að með þeim hætti sé gagnsæi tryggt ásamt jafnræði og trausti í samskiptum við fjárfesta og aðra hagsmunaaðila. Félagið muni því áfram sinna skyldum sínum gagnvart markaðinum eins og það hafi gert undanfarin ár.
Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði, hefur bent á að eldsneytisvarnir Play hafi haft neikvæð áhrif sem af er á árinu þar sem fastsetta verðið reyndist hærra en eldsneytisverðið á markaði. Hann hefur því velt því upp hvort Play ætti að hætta með slíkar eldsneytisvarnir – félagið verður með fáar eigin vélar í rekstri – og frekar að einblína á gjaldseyrisvarnir. Þannig sé bandaríska flugfélagið Southwest hætt að nota eldsneytisvarnir í rekstrinum.
Spurður hvort slík breyting komi til greina rifjar Einar Örn upp að Play hafi hingað til notast við gjaldeyrisvarnir í samræmi við áhættustefnu félagsins og almenna framkvæmd meðal evrópskra flugfélaga. Samkvæmt síðasta uppgjöri Play voru þær varnir félagsins um 36 prósent af öllum áætluðum eldsneytiskaupum á þriðja fjórðungi.
Forstjóri Play nefnir að það sé rétt að bandarísku flugfélögin séu almennt ekki með eldsneytisvarnir og breyta verðum hratt í takti við þróun eldsneytisverðs, sem þau evrópsku gera ekki, enda með varnir.

„Við teljum skynsamlegast að verja okkur í samræmi við það sem samkeppniaðilar félagsins gera. Gjaldmiðlaáhætta félagsins er svo að breytast nokkuð mikið núna. Tekjur félagsins í Bandaríkjadal eru nær alveg að hverfa en ýmis kostnaður er enn í dollar, einkum olía. Það má því segja að félagið sé með stöðu í dollar-evru krossinum. Við erum meðvituð um þá stöðu og höfum varið hana að einhverju leyti. Þetta er stöðugt til skoðunar.“
Sami norski fluggreinandi dró einnig fram í liðnum mánuði að 17,5 prósenta vextirnir á breytanlega bréfinu séu líklega þeir hæstu sem þekkjast í evrópska flugheiminum á sambærilegum útistandandi útgáfum. Er þetta ekki til marks um hversu mikla áhættu fjárfestar, meðal annars þú sjálfur, eruð að taka að leggja félaginu til meira fjármagn?
„Hér er ekki um að ræða hefðbundið bankalán eða veðlán, heldur kemur þetta breytanlega skuldabréf í staðinn fyrir hlutafé sem upphaflega stóð til að safna,“ útskýrir Einar Örn, og heldur áfram: „Vextirnir endurspegla því í raun þá ávöxtunarkröfu sem fjárfestar gera til hlutafjár í félaginu. Markaðsaðstæður eru ekkert sérstaklega hagfelldar núna svo það að þetta skyldi takast sýnir trú fjárfesta á félaginu, sem er afar mikilvægt og sterkt fyrir okkur.“
Það er ekki stefna Play að selja félagið eða undirbúa slíka aðgerð.
Í fyrrnefndri fjárfestakynningu sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance vann í tengslum við fjármögnun Play fyrr í sumar var meðal annars nefnt, sem möguleg ábatasöm útgönguleið fyrir fjárfesta, að félagið yrði yfirtekið af félagi á leigumarkaði með vélar – enda væru Airbus leigusamningar Play á afar góðum kjörum miðað við það sem þekkist á markaðinum í dag.
Er þetta eitthvað sem þú og aðrir lykilstjórnendur eruð að horfa til í náinni framtíð?
„Það er ekki stefna Play að selja félagið eða undirbúa slíka aðgerð,“ undirstrikar Einar Örn, og bætir við: „Í fjárfestakynningum er eðlilegt að fjalla um mögulegar leiðir fyrir fjárfesta til að hámarka virði sitt og verið að draga fram að mörg félög starfa á þessum leiguflugs markaði sem Play verður með meirihluta sín flota í. Áhersla stjórnenda og starfsfólks er núna hins vegar alfarið á að byggja upp sjálfbært, arðbært félag sem sjálfstæður rekstraraðili.