Viðskipti innlent

Neyslan mikil og sjá ekki að stýrivextir fari hratt lækkandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Neysla Íslendinga er mjög mikil um þessar mundir og ekki von á miklum lækkunum stýrivaxta næstu mánuðina.
Neysla Íslendinga er mjög mikil um þessar mundir og ekki von á miklum lækkunum stýrivaxta næstu mánuðina. Vísir/Anton Brink

Greiningardeild Íslandsbanka telur líklegt að vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands ljúki líklega með stýrivöxtum á bilinu 5,5 til 6,0 prósent árið 2027. Íslensk heimili séu neysluglöð í ferðalögum og bílkaupum án þess þó að skuldsetja sig. Kaupmáttur sé mikill og íbúðamarkaður í jafnvægi.

Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá bankans. Eftir óbreytta stýrivexti í 9,25% frá vordögum 2023 fram í október í fyrra hóf Seðlabankinn vaxtalækkunarferli á lokafjórðungi síðasta árs í kjölfar hjaðnandi verðbólgu og minnkandi þenslumerkja í hagkerfinu.

Stýrivextir hafa verið lækkaðir um 1,75 prósentur frá því lækkunarferlið hófst og standa nú í 7,5 prósentum%. Við vaxtaákvörðunina í ágúst hélt Seðlabankinn stýrivöxtum óbreyttum og gaf til kynna að frekari vaxtalækkunar væri aðeins að vænta ef verðbólga hjaðnaði frekar. Sérfræðingar Íslandsbanka telja ekki von á frekari lækkun í ár nema skýr merki komi um kólnandi hagkerfi.

„Teljum við líklegt að vaxtalækkunarferlið hefjist á ný á vordögum 2026 og varfærin vaxtalækkunarskref verði stigin fram í ársbyrjun 2027. Hjaðni verðbólga ekki meira en við spáum og myndist ekki verulegur slaki í hagkerfinu eru þó takmörk fyrir því hversu mikið stýrivextir lækka. Miðað við núverandi horfur lýkur vaxtalækkunarferlinu líklega með stýrivexti á bilinu 5,5 –6,0%.“

Óvertryggðir vextir hjá bönkunum um þessar mundir eru í kringum níu prósent á sama tíma og stýrivextir eru 7,5 prósent.

Þá snertir greiningardeildin á neyslu Íslendinga.

Kortavelta erlendis mikil

„Íslensk heimili hafa því verið neysluglöð það sem af er ári. Kortavelta hefur aukist að raungildi, sérstaklega kortavelta erlendis sem er nú í methæðum. Íslendingar eru mikið á faraldsfæti og hefur ferðalögum til útlanda fjölgað um 20% á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Einnig hafa heimilin verið að ráðast í bifreiðakaup þar sem nýskráningar hafa aukist eftir snarpan samdrátt í fyrra,“ segir í þjóðhagsspánni.

Þrátt fyrir aukna neyslu og fjölgun ferðalaga virðist heimilin ekki vera að skuldsetja sig til að fjármagna neysluna.

„Hún hefur haldist í hendur við aukinn kaupmátt og fólksfjölgun. Það hefur komið okkur á óvart hvað viðnámsþróttur heimila hefur verið sterkur, fjárhagsstaða þeirra er almennt sterk og íslensk heimili virðast ekki vera að ganga verulega á sparnað sinn. Af þessum ástæðum teljum við líklegt að einkaneysla haldi áfram að vaxa jafnt og þétt á næstu misserum, þar sem heimilin nýta aukinn kaupmátt og sparnað til neyslunnar.“

Mikil óvissa

Einkaneysla hefur vaxið um 2,3% að meðaltali síðasta áratug, þó með töluverðum sveiflum.

„Við gerum ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði í takt við þróun fyrri hluta ársins og verði 3,1% á árinu. Á næstu tveimur árum verður vöxturinn örlítið minni, en þó yfir meðaltali. Spá okkar gerir ráð fyrir 2,8% vexti árið 2026 og 2,7% árið 2027.“

Á næsta ári sé von á því að verðbólga gangi aðeins niður frá núverandi gildum.

„Spá okkar gerir þannig ráð fyrir 3,9% verðbólgu að jafnaði árið 2026 og 3,7% árið 2027. Auðvitað þarf vart að nefna að óvissu gætir á alþjóðavísu og innanlands. Ef efnahagshorfur versna verulega gæti verðbólga hjaðnað hraðar en hér er spáð. Á hinn bóginn gæti hún reynst enn þrálátari ef krónan veikist talsvert eða ef húsnæðismarkaður tekur við sér á ný.“

Heilbrigðari íbúðamarkaður

Íbúðaverð hefur hækkað verulega á síðustu árum, um 60% frá árbyrjun 2021 miðað við vísitölu íbúðaverðs. Í lok árs 2023 virtist íbúðamarkaðurinn vera að kólna, en hin svokölluðu Grindarvíkuráhrif hleyptu lífi í markaðinn á fyrri hluta árs 2024 og hækkaði íbúðaverð um 8% á því ári vegna þessa.

„Á þessu ári hefur orðið umtalsverður viðsnúningur á íbúðamarkaðnum og má segja að hann hafi loksins kólnað. Mikil íbúðafjárfesting átti sér stað í fyrra og samhliða því hefur framboð íbúða til sölu aukist verulega. Til að mynda voru um 4.500 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu í september samkvæmt mælingu okkar, þar af 54% nýbyggingar. Meðalsölutími íbúða hefur einnig lengst, sérstaklega þegar kemur að nýjum eignum.“

Íbúðamarkaðurinn virðist nú vera í mun heilbrigðari stöðu en áður. Hvorki sé um kaupendamarkað né seljendamarkað að ræða og flest bendi til þess að markaðurinn sé í jafnvægi um þessar mundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×