Innlent

Stórt fram­fara­skref að færa Blóðbankann í Kringluna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Björn Rúnar segir tilfærslu Blóðbankans í Borgarkringluna mikið framfaraskref. Aðgengi að bankanum á Snorrabraut hafi verið orðið slæmt.
Björn Rúnar segir tilfærslu Blóðbankans í Borgarkringluna mikið framfaraskref. Aðgengi að bankanum á Snorrabraut hafi verið orðið slæmt. Vísir/Lýður

Blóðbankinn í Reykjavík hefur flutt starfsemi sína af Snorrabraut í Kringluna. Framkvæmdastjóri starfseminnar vonar að með þessu leggi fleiri leið sína í bankann og markmið um tvö þúsund nýja blóðgjafa á ári náist. 

Blóðsöfnunarhluti blóðbankans, sá hluti sem almenningur mætir í til þess að gefa blóð, hefur verið fluttur á fimmtu hæð Borgarkringlunnar og hófst blóðsöfnun þar á mánudag. Formleg opnunarathöfn fór fram fyrir hádegi í dag.

„Þetta er náttúrulega svakalega mikilvægt framfaraskref fyrir okkur varðandi blóðbankaþjónustu. Stórt skref fram á við og mikilvægt í þessum lið okkar að bæta þjónustuna og sérstaklega fyrir þennan gríðarlega mikilvæga hóp sem blóðgjafarnir okkar eru,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknar- og stoðþjónustu á Landspítalanum. 

Rannsóknarhluti Blóðbankans verður áfram staðsettur á Snorrabraut 60 en orðið var flókið að taka á móti blóðgjöfum.

„Með vaxandi byggingarmagni og þrengslum, sem því fylgdi, þá var þetta orðið þannig að það var ekki hægt að bjóða upp á nægilega gott aðgengi. Svo höfum við verið í húsnæðisvanda.“

Fyrirmynd að flutningnum er frá Akureyri, þar sem blóðbankinn var færður af sjúkrahúsinu og yfir á Glerártorg fyrir nokkrum árum.

„Ég hef fulla bjartsýni um að þetta muni skila góðu. Við þurfum að bæta í hópinn okkar. Við erum að stefna að því að vera með um það bil tvö þúsund nýja blóðgjafa á hverju ári. Við eigum svolítið í land, við erum með svona 1500 til 1700 á hverju ári. Þannig að við hvetjum fólk til að gerast blóðgjafar,“ segir Björn Rúnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×