Innlent

Með bílinn fullan af fíkni­efnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í nótt.
Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í nótt. Vísir/Sammi

Lögregluþjónar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stöðvuðu í ökumann í gærkvöldi vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefnis. Svo reyndist vera en vöknuðu einnig grunsemdir um að hann væri með fíkniefni í bílnum.

Í dagbók lögreglu segir að töluvert magn efna, sem talin eru fíkniefni, hafi fundist í bílnum og að einnig hafi fundist gögn sem bentu til að maður stundaði sölu og dreifingu fíkniefna.

Þá var leitað á heimili mannsins þar sem peningar fundust og meira af fíkniefnum. Maðurinn var færður í fangaklefa.

Í dagbók lögreglunnar segir að alls hafi 83 mál verið skráð í kerfi lögreglu frá fimm í gær til fimm í morgun og átta hafi gist í fangageymslu í nótt.

Starfsfólk hótels í miðbænum óskaði í nótt eftir aðstoð lögreglu vegna gests sem var ósáttur við þjónustu þar og með læti. Í öðru tilfelli var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á gistiheimili en hann hafði sett brunakerfi staðarins í gang. Við það flæddi vatn út um allt og varð töluvert eignatjón. Maðurinn var handtekinn.

Úr miðbænum barst að minnsta kosti ein tilkynning um líkamsárás og er einn grunaður um að hafa brotið rúðu í verslun en hann gat illa gert grein fyrir sér vegna ölvunar.

Í heildina voru að minnsta kosti tíu ökumenn stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Nokkrir þeirra höfðu áður verið sviptir ökuréttindum. Tveir voru kærðir fyrir hraðakstur en annar þeirra var mældur á 130 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraði er áttatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×