Körfubolti

Iverson opnaði sig um „sjálfskaparvítið“ og erfiðasta tíma­bil lífsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allen Iverson var frábær leikmaður á sínum tíma en líf hans hefur verið sannkallaður rússibani.
Allen Iverson var frábær leikmaður á sínum tíma en líf hans hefur verið sannkallaður rússibani. Getty

NBA-goðsögnin Allen Iverson gerir upp viðburðarríkt líf sitt í nýrri bók sem ber nafnið „Misunderstood“. Iverson ræddi bókina og sagði frá erfiðasta tímabili lífs síns í nýju sjónvarpsviðtali.

„Þetta var sjálfskaparvíti,“ sagði Iverson í þættinum „First Take“ á ESPN. Tawanna Turner og Iverson gengu í hjónaband árið 2001. Stjörnuframi Iversons fór saman við hjónaband þeirra og líkt og ferill hans var það upp og ofan.

Þau skildu að borði og sæng árið 2008 og skilnaðurinn gekk í gegn árið 2013. Það fór saman við lok ferils Iversons því hann tilkynnti formlega að hann væri hættur í október 2013 og sagðist ekki lengur hafa áhuga á að spila körfubolta.

„Þá vissi ég að ég væri kominn á botninn og það væri kominn tími á djúpa sjálfsskoðun,“ sagði hann. „Þegar ég sat þarna í réttarsalnum, þá var ég vanur að horfa á Sixers á móti Sixers í æfingaleik, eða Georgetown á móti Georgetown. Tárin byrjuðu að falla á skilnaðarskjölin þegar ég leit niður og sá „Iverson á móti Iverson“.“

Turner og Iverson hafa nú tekið saman aftur. Þegar hann var spurður hvernig hann fékk Tawanna til að koma aftur, sagði hann: „Ég þurfti að grátbiðja mikið,“ sagði Iverson.

Sem hluti af þessari djúpu sjálfsskoðun og enduruppbyggingu hjónabandsins sagðist Iverson, sem er fimmtugur í dag, hafa gert sér grein fyrir því að áfengi væri stórt vandamál og hann væri orðinn þreyttur á að berjast við það. Skilnaðurinn, lok ferilsins, allur bagginn frá æskuárunum – allt þetta var að íþyngja honum.

„Þetta er ofgnótt af hlutum. Að lokum, þegar þú metur þroska þinn og hvað er mikilvægt og hvað þú þýðir fyrir fjölskyldu þína og vini og heiminn, hugsaði ég bara um hvernig ég átti að vera í lífinu. Og ég sá ekki hvernig [áfengi] var að hjálpa neitt,“ sagði hann. „Allt sem ég gat hugsað um var neikvæð reynsla.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×