Innlent

Sam­fylkingin með mesta fylgi allra flokka

Lovísa Arnardóttir skrifar
Samanlagt er fylgi ríkisstjórnarflokkanna miðað við könnun Prósents 54 prósent. 
Samanlagt er fylgi ríkisstjórnarflokkanna miðað við könnun Prósents 54 prósent.  Vísir/Anton Brink

Samfylkingin mælist með mesta fylgi allra flokka á landsvísu samkvæmt nýrri könnun Prósents. Rúm 30 prósent segjast myndu kjósa Samfylkinguna yrði kosið til Alþingis í dag. Samkvæmt könnun er fylgið marktækt meira hjá konum og hjá þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samanlagt með 54 prósent fylgi. 

Gögnum var safnað frá 16. til 30. september 2025 í netkönnun. Úrtakið var tvö þúsund manns og var svarhlutfallið 50 prósent.

Í tilkynningu Prósents segir að af þeim sem tækju afstöðu þá myndu 32 prósent kjósa Samfylkinguna, 18,3 prósent Sjálfstæðisflokkinn, 14,4 prósent Viðreisn, 9,9 prósent Miðflokkinn, 7,6 prósent Flokk fólksins, 7,1 prósent Framsóknarflokkinn, 5,2 prósent Pírata, 2,7 prósent Sósíalistaflokkinn, 2,1 prósent Vinstri græn og 0,7 prósent Lýðræðisflokkinn.

Fylgi allra flokka samkvæmt könnun Prósents. Prósent

Þá kemur einnig fram að fylgi Samfylkingarinnar er marktækt meira hjá konum en körlum, eða 37 prósent á móti 28 prósentum. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er marktækt meira hjá körlum en konum, eða 21 prósent á móti 15 prósentum. Fylgi Miðflokksins er marktækt meira hjá körlum en konum, eða 13 prósent á móti sex prósenta fylgi þeirra hjá konum.

Ef litið er til aldurs þá er fylgi Viðreisnar marktækt meira hjá einstaklingum á aldrinum 35 til 54 ára í samanburði við 55 ára og eldri. Fylgi Framsóknarflokksins er marktækt meira hjá 18 til 34 ára en hjá þeim sem eldri eru. Fylgi Flokks fólksins er marktækt meira hjá 35 ára og eldri en hjá þeim sem yngri eru. Fylgi Pírata er marktækt meira hjá 18 til 34 ára en hjá þeim sem eru 55 ára og eldri.

Fylgi á landsbyggð meira hjá Sjálfstæðisflokki og Flokki fólksins

Fylgi Samfylkingarinnar er svo marktækt meira hjá þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni eða 35 prósent á móti 26 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er marktækt meira hjá þeim sem búa á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu eða 23 prósent á móti 16 prósent og það sama gildir um fylgi Flokks fólksins þar sem það er 12 prósent á móti fimm prósenta fylgi á höfuðborgarsvæðinu.

Fylgi Samfylkingar er einnig marktækt meira hjá þeim sem eru með háskólapróf en hjá þeim sem eru með grunnskólapróf, framhaldsskólapróf eða iðnmenntun eða 36 prósent á móti 28 prósentum. Fylgi Miðflokksins er marktækt meira hjá þeim sem eru ekki með háskólapróf eða 13 prósent á móti sjö prósentum þeirra sem eru með háskólapróf. Fylgi Framsóknarflokksins er meira hjá þeim sem eru með háskólapróf eða níu prósent á móti fimm prósentum þeirra sem ekki eru ekki með háskólapróf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×