Innlent

Starfs­menn Kubbs og Terra grunaðir um sam­ráð

Lovísa Arnardóttir skrifar
Annað fyrirtækið sem leitað var hjá er Terra.
Annað fyrirtækið sem leitað var hjá er Terra. Terra

Embætti héraðssaksóknara framkvæmdi í dag húsleitir og aðrar aðgerðir til þess að afla gagna og upplýsinga vegna ætlaðra brota tveggja fyrirtækja á markaði fyrir úrgangsþjónustu á samkeppnislögum. Fyrirtækin eru Terra og Kubbur. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru sex starfsmenn fyrirtækjanna handteknir í aðgerðunum. Framkvæmdar voru húsleitir á níu stöðum. Alls tóku 30 starfsmenn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, héraðssaksóknara og Samkeppniseftirlitsins þátt í aðgerðunum.

Fyrirtækin sjá bæði um sorphirðu hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum. Kubbur sér til dæmis um sorphirðu hjá Bolungarvík, Fjarðabyggð, Ísafjarðarbæ, Kópavogsbæ og Múlaþingi. Terra er með þjónustu um allt land og er með átta starfsstöðvar um allt land. Terra tók til dæmis nýverið yfir sorpþjónustu í Vestmannaeyjabæ.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir að rannsóknin beinist að ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna og að hún grundvallist á kæru Samkeppniseftirlitsins.

Þá kemur fram að samhliða rannsókn embættis héraðssaksóknara á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hafi Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 við samráði keppinauta um meðal annars gerð tilboða í útboðum og skiptingu markaða.

Framangreindar aðgerðir embættis héraðssaksóknara voru framkvæmdar í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, en ákvæði 42. gr. samkeppnislaga heimila samvinnu og miðlun upplýsinga milli embættis héraðssaksóknara og Samkeppniseftirlitsins.

Í tilkynningu segir að Samkeppniseftirlitið muni ekki veita frekari upplýsingar á þessu stigi. Tilkynningin er aðgengileg hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×