Palace neitar að sleppa takinu á Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Palace líður vel með að spila gegn Liverpool.
Palace líður vel með að spila gegn Liverpool. Dan Istitene/Getty Images

Crystal Palace sló Liverpool út úr enska deildarbikarnum með 2-0 útisigri á Anfield. Lærisveinar Oliver Glasner hafa nú unnið tvo leiki í röð á móti Liverpool og ekki tapað í síðustu fjórum.

Arne Slot stillti upp mikið breyttu liði í kvöld og virtist sem Liverpool væri ekki alveg tilbúið að leggja allt í sölurnar til að komast áfram í deildarbikarnum. Á sama tíma hvíldi Glasner einnig lykilmenn en gestirnir þó sterkari á pappír.

Ekki voru þeir aðeins sterkari á pappír heldur einnig inn á vellinum. Eftir heldur þurran og bragðdaufan fyrri hálfleik fór að rigna, Það kveikti í gestunum sem komust yfir þegar boltinn hrökk af Joe Gomez, miðverði Liverpool og fyrir fætur Ismaïla Sarr innan vítateigs.

Senegalinn gerði engin mistök og staðan orðin 0-1. Áður en flautað var til hálfleiks var staðan orðin 0-2. Aftur var Sarr á ferðinni en að þessu sinni eftir að gestirnir höfðu tætt götótta vörn heimaliðsins í sig.

Boltinn barst á Sarr eftir magnað þríhyrningsspil þar sem hann flikkaði boltanum með hælnum til Yeremy Pino sem gaf boltann til baka á Sarr á hárréttu augnabliki. Enginn varnarmaður Liverpool hafði áhuga á að elta Sarr sem stakk sér í gegnum miðja vörn heimamanna og kláraði færið af mikilli yfirvegun.

Þegar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma misstu heimamenn mann af velli. Amaro Nallo fékk þá rosalega klaufalegt rautt spjald þegar hann flæktist í Justin Devenny sem var að sleppa einn í gegn. Ekkert annað í stöðunni en að senda drenginn i sturtu.

Þetta nýtti Palace sér og skoraði Pino þriðja mark gestanna þegar venjulegur leiktími var svo gott sem liðinn. Hann kom inn af vinstri og lét vaða með hægri í hornið fjær. Staðan orðin 0-3 og Anfield tæmdist. Reyndust það lokatölur leiksins.

Önnur úrslit 

  • Arsenal vann 2-0 sigur Brighton & Hove Albion. Ethan Nwaneri skoraði á 58. mínútu og Bukayo Saka tryggði farseðilinn í næstu umferð. 
  • Manchester City lagði Swansea City 3-1 eftir að lenda undir þökk sé marki Gonçalo Franco á 12. mínútu. Jeremy Doku, Omar Marmoush og Rayan Cherki með mörk Man City.
  • Chelsea vann Wolves 4-3 eftir að komast 3-0 yfir. Andrey Santos, Tyrique George, Estêvão og Jamie Gittens með mörk Chelsea. Toluwalase Emmanuel Arokodare og David Møller Wolfe (2) skoruðu fyrir Úlfana. Liam Delap sá rautt eftir að fá tvö gul í liði Chelsea.
  • Newcastle United vann Tottenham Hotspur 2-0 þökk sé mörkum Fabian Schar og Nick Woltemade.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira