Innlent

Rósa Guð­bjarts hætt í bæjar­stjórn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir er þingkona Sjálfstæðisflokksins og var oddviti flokksins í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir er þingkona Sjálfstæðisflokksins og var oddviti flokksins í Hafnarfirði. Vísir/Anton Brink

Rósa Guðbjartsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur setið sinn síðasta bæjarstjórnarfund í Hafnarfirði. Þetta tilkynnti hún í lok bæjarstjórnarfundar í dag.

Rósa var kjörin inn á þing í nóvember sem fjórði þingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi. Þá var hún enn bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar en Valdimar Víðisson tók við af henni um áramótin. Þá varð Rósa að almennum bæjarfulltrúa og hefur verið síðan þá. Þegar fréttastofa ræddi við hana í mars sagði hún ekki útilokað að hún myndi sitja í bæjarstjórn út kjörtímabilið.

Rósa hefur verið bæjarfulltrúi í Hafnarfirði í nítján ár, frá árinu 2006. Hún var bæjarstjóri frá 2018 og til síðustu áramóta.

„Þetta hefur verið ánægjulegur tími. Ég þakka þann mikla árangur, sem við höfum náð í að gera góðan bæ betri, einstaklega samhentum hópi okkar sjálfstæðismanna,“ skrifar Rósa í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook.

„Sjálf hef ég sett hjarta mitt og sál í þetta starf og ég mun áfram brenna fyrir bæinn minn. Við þessi kaflaskil vil ég þakka öllu samstarfsfólki, starfsmönnum bæjarins og kjörnum fulltrúum, fyrir einkar skemmtilegt og gjöfult samstarf í gegnum árin og sérstaklega Hafnfirðingum öllum sem ég hef átt í mjög ánægjulegu sambandi við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×