Sport

BKG fer með Ís­lands­mótið í CrossFit í sund­laug í Hvera­gerði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson þekkir það vel að keppa í sundgreinum á alþjóðlegum stórmótum í CrossFit.
Björgvin Karl Guðmundsson þekkir það vel að keppa í sundgreinum á alþjóðlegum stórmótum í CrossFit. @dxbfitnesschamp

Íslandsmótið í CrossFit fer fram um helgina þar sem keppt er í opnum flokki karla og kvenna. CrossFit Ísland hefur verið að kynna keppnisgreinarnar í aðdraganda mótsins sem hefst í kvöld.

Björgvin Karl Guðmundsson, sem er þekktastur undir gælunafninu BKG í CrossFit-heiminum, er tekinn við stjórninni hjá CrossFit Reykjavík sem heldur Íslandsmótið.

Hann kynnti fimmtu grein Íslandsmótsins sjálfur eins og sjá má hér fyrir neðan.

Björgvin Karl þekkir sundgreinarnar vel frá þátttöku sinni á heimsleikunum í gegnum tíðina og hann ætlar að bjóða upp á sundgrein á Íslandsmótinu. Hann ætlar líka með greinina í sína heimabyggð.

„Við ætlum að fara til Hveragerðis, í sundlaugina Laugaskarð og við ætlum að gera sund WOD,“ sagði Björgvin Karl.

Sundlaugin Laugaskarði var byggð í sjálfboðavinnu en fyrst var vatni hleypt í hana í júnímánuði árið 1938. Hún er því orðin 87 ára gömul.

Fimmta greinin er sambland af fimmtíu eða hundrað metra sundsprettum og 25 handlóðapressum með hnébeygju. Sundið má að sjálfsögðu synda með frjálsum hætti en það má búast við talsverðum buslugangi í öllum hamaganginum.

Fimmta greinin heitir þó ekki BGK eða Hvergerði heldur var hún skírð „Kristín Rós“ eftir íslensku sunddrottningunni Kristínu Rós Hákonardóttur sem er ein mesta afrekskona íslenskra íþrótta enda vann hún til fjölda gullverðlauna á Ólympíumótum fatlaðra.

Kristín vann alls tólf ólympíuverðlaun, þar af fimm gull, tvenn silfur og fimm brons. Hún var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2008 og var útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2013.

Nöfn hinna greinanna á Íslandsmótinu eru „Sóley Margrét“, „Vala Flosa“, „Mari Järsk“ og „Eygló Fanndal“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×