Sport

Allt jafnt á toppnum hjá bæði körlum og konum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Valdimarsdóttir ætlar sér að endurheimta Íslandsmeistaratitilnn og hún fær góðan stuðning úr stúkunni.
Guðbjörg Valdimarsdóttir ætlar sér að endurheimta Íslandsmeistaratitilnn og hún fær góðan stuðning úr stúkunni. @guccivaldimarsdottir

Það stefnir í spennandi baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í CrossFit í opnum flokki eftir fyrsta daginn sem fór fram í húsakynnum CrossFit Reykjavík í gær.

Í karlaflokki eru Rökkvi Guðnason og Bjarni Leifs jafnir í efstu tveimur sætunum. Þeir hafa unnið eina grein og enduðu síðan í öðru sæti í hinni greininni.

Rökkvi og Bjarni eru báðir með 190 stig af 200 mögulegum og eru 72 stigum á undan manninum í þriðja sæti sem er Gunnar Malmquist Þórsson.

Lini Linason og Michael Viedma eru síðan með 100 stig í fjórða og fimmta sætinu.

Efstu konur eru líka jafnar því þær Guðbjörg Valdimarsdóttir og Steinunn Anna Svansdóttir eru báðar með 180 stig af 200 mögulegum.

Guðbjörg vann fyrstu grein og varð í þriðja sæti í hinni en Steinunn Anna endaði í öðru sætinu í báðum greinum. Steinunn Anna er ríkjandi Íslandsmeistari og Guðbjörg vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2022.

Í þriðja sætinu er síðan Elín Hallgrímsdóttir með 164 stig eða sextán stigum á eftir efstu konum. Elín byrjaði ekki vel, fimmta sæti í fyrstu grein, en vann síðan grein tvö og kom sér með því heldur betur inn í baráttuna.

Í fjórða sæti er Andrea Ingibjörg Orradóttir með 152 stig og fimmta er Lydia Kearney með 136 stig.

Keppni á öðrum degi hefst klukkan 18.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×