Skoðun

Skilin eftir á SAk

Gunnhildur H Gunnlaugsdóttir skrifar

Hjúkrunarfræðingar skrifuðu undir kjarasamning í lok árs 2024. Þar sem samið var um nýja launatöflu þá þurfti að endurskoða alla stofnanasamninga. Nú hafa 8 af hverjum 10 hjúkrunarfræðingum fengið slíkan samning. Fáar stofnanir á landsbyggðinni sitja hins vegar eftir þar sem ekki hefur ekki verið gengið frá þessum síðari hluta kjarasamnings.

Sjúkrahúsið á Akureyri er ein þeirra stofnana sem ekki hafa lokið við gerð nýs stofnanasamnings. Á vormánuðum munu SAk og nokkrar aðrar stofnanir hafa óskað eftir leiðbeiningum heilbrigðisráðuneytisins varðandi þessa samningagerð. Í kjölfarið stöðvaði ráðuneytið frekari samingagerð til 1. september. Síðan hefur ekkert gerst og þrátt fyrir ítrekaðar óskir um viðræður hefur ekkert gengið. Ekkert hefur verið unnið í málinu frá því í vor, engir fundir haldnir og því engar kjarabætur. Eflaust má velta fyrir sér hvort að rétt hafi verið að heilbrigðisráðuneytið væri með þessum hætti að hlutast til um kjarasamningsgerð og taka með því þátt í að mismuna hjúkrunarfræðingum þannig að lítill hluti þeirra er skilinn eftir. Óvissa er um hvort kjarabætur sem fylgja stofnanasamingum séu afturvirkar og á meðan kollegar á suðvestur-horni landsins hafa fyrir mörgum mánuðum unnið eftir nýjum samningi sitja hjúkrunarfræðingar á SAk eftir með sárt ennið. Ekki getum við gripið til neinna aðgerða á meðan kjarasamningur er í gildi, á okkur hvílir friðarskylda. Kjarasamningar verða að halda og ætti ekki að þurfa að taka það fram.

Hjúkrunarfræðingar á SAk hafa staðið við sinn hluta kjarasamningsins og unnið hörðum höndum alla daga. Nú reynir á hvort það ágæta fólk sem setti nafn sitt á kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga stendur við þau orð sem þar standa.

Höfundur er sérfræðingur í skurðhjúkrun við sjúkrahúsið á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×