Innlent

Í­búar kvarta undan myrkri

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íbúar segja ljósastaura hafa gert lítið eða alls ekkert gagn í miðborginni undanfarna daga.
Íbúar segja ljósastaura hafa gert lítið eða alls ekkert gagn í miðborginni undanfarna daga. Vísir/Vilhelm

Íbúar í miðborg Reykjavíkur hafa kvartað sáran yfir miklu myrkri í hverfinu og ljósastaurum sem slökkt er á í nokkrum götum eða gefa af sér daufa birtu. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg stendur yfir LED-væðing ljósastaura, tafir á henni útskýri myrkrið og eru íbúar hvattir til að senda borginni ábendingar.

Það var íbúi á Bergstaðastræti í Þingholtunum sem vakti athygli á því á íbúahópi á Facebook að slökkt væri á ljósastaurum í götunni annað kvöldið í röð. Þá bentu aðrir íbúar á að staðan væri svipuð hjá þeim, meðal annars á Urðarstíg, götunni fyrir ofan Bergstaðastræti. 

Þar væri einungis kveikt á öðrum hverjum staur. Þá sögðust íbúar á Óðinsgötu og í Grettisgötu sömuleiðis kannast við málið.

Samkvæmt svörum frá Reykjavíkurborg er ljósabúnaður víðast hvar í miðborginni orðinn gamall og er unnið að LED-væðingu ljósastaura. Þeir séu komnir á tíma víðast hvar en uppfærslan taki tíma. 

Tekið verði tillit til ábendinga frá íbúum í miðborginni og brugðist við þeim. Eru íbúar hvattir til þess að koma ábendingum á borgaryfirvöld á vefsíðu borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×