Fótbolti

Hótað tíu leikja banni fyrir færslu á samfélagsmiðlum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vitor Roque var sjálfur hissa á öllum látunum en slapp á endanum við leikbann.
Vitor Roque var sjálfur hissa á öllum látunum en slapp á endanum við leikbann. Getty/Richard Callis

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Vitor Roque kom sér í vandræði vegna þessa sem hann setti inn á samfélagsmiðla sína en virðist ætla að sleppa með skrekkinn.

Roque átti yfir höfði sér tíu leikja bann fyrir að birta mynd af tígrisdýri að éta dádýr eftir leik Palmeiras og São Paulo.

Þetta er nú eitthvað sem þekkist nú vel í náttúrunni og sést víða. Vandræðin koma til vegna þess sem myndin táknar.

Orðið yfir dádýr er slangur fyrir „homma“ og níðyrði sem oft er beint að stuðningsmönnum São Paulo. Hann gerðist þarna sekur um hómófóbíu þegar hann reyndi að gera grín að São Paulo á samfélagsmiðlum sínum.

„Ég er ekki hræddur. Lögfræðingar Palmeiras vinna í málinu,“ sagði Vitor Roque áður en málið var tekið fyrir.

Leikmaðurinn hafði verið kærður samkvæmt grein 243-G, sem fjallar um mismunun og kveður á um fimm til tíu leikja bann. Roque birti mynd sem sýndi tígrisdýr éta dádýr, sem var vísun í gælunafn hans, „Tigrinho“, og hvernig samkynhneigðir eru kallaðir með niðrandi hætti í fótboltaheiminum. Innan við klukkustund eftir óheppilega færslu eyddi leikmaðurinn henni.

„Með því að tengja tákn andstæðingsins við mynd af „dádýri“ í háðs- og fyrirlitningartóni, fer það út fyrir mörk íþróttalegs rígs og telst fyrirlitleg og svívirðileg athöfn sem tengist fordómum á grundvelli kyns og kynhneigðar,“ benti ákæruvaldið á í kærunni á sínum tíma.

Vitor Roque treysti á lögfræðideild Palmeiras að ná samkomulagi um agaviðurlög sem hún gerði.

Leikmaður Palmeiras mun því aðeins fá sekt upp á áttatíu þúsund brasilíska riala, auk þess að þurfa að birta færslu gegn hómófóbíu og hafa hana fasta á Instagram-prófílnum sínum. Sektin er upp á tæpar tvær milljónir íslenskra króna.

Vitor Roque, sem hefur leikið fyrir brasilíska landsliðið, varði sig með því að segja að þetta hafi bara verið grín.

„Ég sé ekki ástæðu fyrir leikbanni eins og margir eru að segja. Ég held að fræðandi samtal sé þegar fullgilt. En ég vildi líka segja að þetta var ekkert tengt hómófóbíu. Þetta var bara grín, sem ég birti án illvilja. Ég bið alla afsökunar sem halda annað,“ sagði Roque.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×