Bíó og sjónvarp

Udo Kier er látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Udo Kier var algjör költstjarna og átti farsælt samstarf með mörgum góðum leikstjórum, þar á meðal Rainer Werner Fassbinder, Paul Morrissey og Lars von Trier.
Udo Kier var algjör költstjarna og átti farsælt samstarf með mörgum góðum leikstjórum, þar á meðal Rainer Werner Fassbinder, Paul Morrissey og Lars von Trier. Getty

Þýski leikarinn Udo Kier, sem lék í meira en 200 kvikmyndum á ferli sínum, er látinn, 81 árs að aldri. Kier var þekktur fyrir stingandi augnaráð sitt og lék gjarnan sérstæða karaktera eða illmenni.

Maki Kier, listamaðurinn Delbert McBride, greindi Variety frá því að hann hefði látist á sjúkrahúsi í Palm Springs á sunnudag.

Þurfti að grafa mæðginin úr rústunum

Kier fæddist 14. október 1944 í Köln undir lok Seinni heimsstyrjaldarinnar en skömmu eftir fæðinguna varð spítalinn fyrir loftárás og þurfti að grafa mæðginin út úr rústunum. Kier ólst upp án föður og flutti átján ára gamall til Englands að læra ensku.

Kier lék í ýmsum B-myndum og hrollvekjum í upphafi ferilsins.

Kier hóf að leika í kvikmyndum á seinni hluta sjöunda áratugarins og kom sér á kortið með tveimur hrollvekjum, Flesh for Frankenstein (1973) og Blood for Dracula (1974), sem listamaðurinn Andy Warhol framleiddi og Paul Morrissey leikstýrði. Kier lék aðalhlutverkin í báðum myndum sem voru kómedískar og ögrandi uppfærslur á skrímslunum klassísku.

Myndirnar gerðu Kier frægan og næstu tvo áratugi vann hann vítt og breitt um Evrópu. Hann starfaði náið með þýska leikstjóranum Rainer Werner Fassbinder  að The Stationmaster’s Wife (1977), The Third Generation (1979) og Lili Marleen (1981).

Drakúla og Frankenstein eru sígild verk.

Um svipað leyti kynntist Kier danska leikstjóranum Lars von Trier og lék í hinni tilraunakenndu Epidemic (1987). Það reyndist upphafið að farsælu samstarfi og lék Kier í fjölda mynda leikstjórans, þar á meðal Europa (1991), Breaking the Waves (1996), Dancer in the Dark (2000), Dogville (2003) og Melancholia (2011).

Kier kynntist leikstjóranum Gus Van Sant á kvikmyndahátíðinni í Berlín og hjálpaði Gus honum að fá atvinnuleyfi í Bandaríkjunum. Van Sant kynnti Bandaríkjamenn síðan fyrir Kier í dramanu My Own Private Idaho (1991) þar sem hann lék á móti River Phoenix og Keanu Reeves.

Á tíunda áratugnum lék Kier í fjölda smáhlutverka í stórum Hollywood-myndum á borð við Ace Ventura: Pet Detective (1994). Armageddon (1998) og Blade (1998). 

Kier var iðinn við að leika allt fram á þetta ár og síðasta mynd hans var hin brasilíska The Secret Agent (2025) sem vann til fjölda verðlauna á Cannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.