Sport

Fjórir bestu mætast í lengri leikjum á Snorra­braut

Sindri Sverrisson skrifar
Ljóst er hverjir mætast í undanúrslitunum á laugardagskvöld.
Ljóst er hverjir mætast í undanúrslitunum á laugardagskvöld. Sýn Sport

Aðeins fjórir keppendur standa eftir í Úrvalsdeildinni í pílukasti og keppa þeir á Bullseye við Snorrabraut annað kvöld, í beinni útsendingu á Sýn Sport, um sæti á lokakvöldinu.

Bein útsending frá Snorrabraut hefst klukkan 20 annað kvöld á Sýn Sport.

Mikið hefur gengið á í Úrvalsdeildinni í vetur en eftir standa þeir fjórir sem sýnt hafa mestan stöðugleika og besta frammistöðu heilt yfir.

Í undanúrslitunum mætast:

  • Árni Ágúst Daníelsson - Halli Egils
  • Alexander Veigar Þorvaldsson - Kristján Sigurðsson

Leikið verður með öðru fyrirkomulagi í undanúrslitunum en hingað til í keppninni, og verður fyrirkomulagið nú í anda HM í Ally Pally sem einnig styttist óðum í að hefjist.

Keppendur þurfa að vinna tvö sett til að vinna leikinn, og þarf að vinna þrjá leggi til að vinna eitt sett.

Í átta manna úrslitunum um síðustu helgi var rafmögnuð spenna í loftinu á Bullseye og eru áhorfendur hvattir til að mæta snemma á staðinn á morgun.

Ríkjandi meistari úr leik

Árni Ágúst vann í átta manna úrslitunum sigur á Halla Birgis í oddalegg, 5-4. Alexander Veigar vann svo Hörð Þór Guðjónsson í Grindavíkurslag tveggja efstu manna á styrkleikalista ÍPS, einnig eftir oddalegg. 

Halli Egils kláraði Vitor Charrua, fráfarandi meistara í Úrvalsdeildinni, í sjö leggjum og landsliðsþjálfarinn Kristján Sigurðsson vann svo nýliðann Jón Bjarma Sigurðsson í æsispennandi einvígi sem fór í langan oddalegg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×