Innlent

Telur rétt að snið­ganga Euro­vision

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Logi Már Einarsson menningarmálaráðherra.
Logi Már Einarsson menningarmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Menningarmálaráðherra telur rétt að sniðganga Euróvisjón í ljósi þess að ákveðið hafi verið að leyfa Ísraelum að taka þátt. Það sé hins vegar ekki ráðherra að ákveða hvaða leið verði farin heldur stjórnar Ríkisútvarpsins.

Fulltrúar evrópskra sjónvarpsstöðva samþykktu í síðustu viku að leyfa Ísrelum að taka þátt í Eurovision í Vín í Austurríki á næsta ári. Nokkur lönd tilkynntu þá þegar að þau myndu draga sig úr keppninni. Þeirra á meðal voru Hollendingar, Spánverjar, Írar og Slóvenar. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur fengið áskoranir víða að um að falla frá þátttöku.

Stjórnin hafði áður beint þeim tilmælum til Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva að Ísrael yrði vísað úr keppninni.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu finnst minnihluta stjórnarmanna RÚV að ákvörðun um þátttöku í keppninni eigi að vera í höndum ráðherra, frekar en í höndum stjórnar, þar sem um pólitíska ákvörðun sé að ræða.

Persónuleg skoðun

Logi Már Einarsson menningarmálaráðherra segir að það sé ekki á hans könnu að taka ákvörðun í málinu heldur stjórnarinnar en hann hafi hins vegar persónulega skoðun.

„Nú er það ekki ráðherra að hlutast til um dagskrárgerð. Við værum komin á hættulegar brautir ef ráðherra gæti með geðþóttaákvörðunum tekið ákvarðanir um einstaka dagskrárliði hjá fjölmiðlunum. Persónulega þá segir magatilfinningin mér hins vegar að við ættum að láta eiga sig að taka þátt. En sem ráðherra mun ég auðvitað ekki stíga inn í þetta mál enda á ég ekki að gera það,“ segir Logi.

Stjórn ríkisútvarpsins mun taka ákvörðun í málinu á fundi sínum sem hefst klukkan þrjú á morgun en frestur til að draga þátttöku til baka úr keppninni rennur út á morgun. 

Lóaboratoríum boða til samstöðufundar við RÚV á morgun klukkan hálf þrjú þar sem stjórn stofnunarinnar er hvött til að sniðganga Eurovision.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×