Handbolti

Gerir miklar kröfur til sjálfs síns: „Það má aldrei slaka á“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur komið víða við á sínum þjálfaraferli og verið farsæll í starfi
Guðmundur Guðmundsson hefur komið víða við á sínum þjálfaraferli og verið farsæll í starfi

Guð­mundur Guð­munds­son segir árangur sinn sem þjálfari danska úr­vals­deildar­félagsins Fredericia tala sínu máli. Hann lítur stoltur yfir farinn veg sem reyndi á og var krefjandi á köflum.

Leiðir Guð­mundar og Fredericia skyldu á þriðja ári sam­starfsins nú fyrr á árinu eftir brös­ótt gengi í upp­hafi tíma­bils en þess ber þó að geta að liðinu hefur ekki tekist að snúa genginu við undir stjórn nýs þjálfara og situr í næst neðsta sæti dönsku deildarinnar.

Undir stjórn Guð­mundar náði Fredericia sögu­legum árangri, vann fyrstu medalíu sína í 43 ár, komst í odda­leik í úr­slita­ein­vígi dönsku deildarinnar gegn stór­liði Ála­borgar og spilaði í fyrsta sinn í Meistara­deild Evrópu.

„Þetta var rosa­lega skemmti­legt en auðvitað krefjandi. Ég geri mjög miklar kröfur til sjálfs míns sem þjálfara, alltaf. Að sama skapi geri ég miklar kröfur til allra í kringum mig,“ segir Guð­mundur í sam­tali við íþrótta­deild.

„Lykillinn að vel­gengninni, að mínu mati, þarna var góð um­gjörð í kringum liðið sem er og hefur verið. Síðan náum við að spila ótrú­lega góða vörn sem and­stæðingar okkar áttu mjög erfitt með að leysa. Við spiluðum fram­liggjandi vörn sem ég spilaði áður með ís­lenska lands­liðinu. Ég byrjaði að þróa þessa vörn árið 2008 og hef síðan þá verið að þróa hana meira og meira. Hann er lykillinn að þessu finnst mér, þessi stór­kost­legi varnar­leikur.“

Guðmundur á hliðarlínunni sem þjálfari Fredericia á fyrsta tímabili liðsins í Meistaradeild Evrópu, stærsta sviði félagsliðaboltansVísir/Getty

Lykillinn sé stöðugleiki

Í gegnum sinn feril hefur Guð­mundur verið trúr sínum gildum og sann­færst enn frekar um þau eftir því sem líður á.

„Fyrir mig hefur það alltaf skipt miklu máli að gera þá leik­menn betri sem hjá mér eru. Ég hef til að mynda fyllst gleði þegar að leik­menn mínir verða lands­liðs­menn. Það hefur fylgt mér alveg síðan að ég fór frá Ís­landi á sínum tíma, mér hefur alltaf fundist það heilög skylda mín sem þjálfari að gera þá leik­menn sem hjá mér eru betri. Ég er mjög glaður yfir því að Einar Ólafs­son skyldi verða lands­liðs­maður þegar að hann starfaði undir minni stjórn. Hann er það enn og er bara gríðar­lega efni­legur drengur sem tók stór­stígum fram­förum undir minni stjórn sem varnar­maður.“

Til að ná árangri í hverju sem er krefst það þess að menn leggi sig fram eitt hundrað pró­sent.

„Á hverjum einasta degi á hverri einustu æfingu, alltaf. Þú þarft alltaf að vera á fullu, það má aldrei slaka á. Liðin sem ná að halda stöðug­leika, sem er mjög erfitt, eru lík­legri til að ná meiri árangri. Þetta tókst okkur í þessi þrjú ár, meira og minna.

Það eru þessir þættir sem mér finnst mjög at­hyglis­verðir. Að eiga þátt í því að breyta hugar­fari, víkka sjón­deildar­hringinn, láta menn trúa á að allt sé mögu­legt. Mér fannst það takast. Árangurinn segir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×