Erlent

Segir „evrópsk svín“ vilja hagnast á falli Rúss­lands

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlandso go Valerí Gerasímóv, formaður herforingjaráðs Rússlands, á fundi stjórnar varnarmálaráðuneytisins í morgun.
Vladimír Pútín, forseti Rússlandso go Valerí Gerasímóv, formaður herforingjaráðs Rússlands, á fundi stjórnar varnarmálaráðuneytisins í morgun. AP/Alexander Kazakov, Sputnik

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að „evrópsk svín“ hafi tekið höndum saman við fyrrverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna, í þeim tilgangi að fella Rússland. Þeir hafi vonast til að græða á falli Rússlands og segir Pútín þá hafa talið að Rússland myndi fljótt falla.

Hann sagði að Rússar myndu frelsa „sögulegt landsvæði“ Rússa í Úkraínu og að „svínin“ í Evrópu myndu missa völd sín.

Þetta sagði Pútín á fundi stjórnar varnarmálaráðuneytis Rússlands í morgun, þar sem hann gaf lítið tilefni til að telja að hann vilji binda enda á stríðið í Úkraínu.

Forsetinn fór um víðan völl í ávarpi sínu og sagði meðal annars að markmiðum hinnar sértæku hernaðaraðgerðar, eins og hann kallar innrásina í Úkraínu, yrði náð. Ekki yrði vikið frá þeim markmiðum og ef Úkraínumenn vildu ekki ræða markmið Rússa, myndu þeir ná þeim fram með herafli.

Í sömu ræðu sagði Pútín orðræðu um að ríki Evrópu þyrftu að búa sig undir mögulegar árásir frá Rússlandi vera histeríu.

Sjá einnig: Evrópa þurfi að vera búin undir aðra stórstyrjöld

Hann sagði einnig að Úkraína væri ekki fullvalda ríki, að Vesturlönd hefðu byrjað stríðið árið 2022, þegar Rússar réðust inn í Úkraínu, og að hann krefðist þess að staðið yrði við meint loforð til Rússa um að ríkjum Austur-Evrópu yrði ekki hleypt inn í Atlantshafsbandalagið. Það eru loforð sem aldrei voru veitt.

Þá fór Pútín fögrum orðum um Bandaríkin og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og sagði mikilvægt að byggja upp samvinnu við bæði Bandaríkin og Evrópu, á jöfnum grunni. Hann sagði þó að erfitt yrði að ræða við núverandi ráðamenn í Evrópu.

Það sagði hann þegar hann var að tala um að Joe Biden, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og „svínin“ hefðu ætlað að fella Rússland.

„Evrópsku svínin tóku strax til handa, með ríkisstjórn Bandaríkjanna, í þeirri von að auðgast á falli ríkis okkar.“

Pútín og ráðamenn hans hafa orðið sífellt harðorðari í garð Evrópu að undanförnu og saka meðal annars Evrópumenn um að standa í vegi friðar. Orðræða þessi virðist hafa aukist samhliða versnandi samskiptum margra ríkja Evrópu við Bandaríkin.

Í ræðunni í morgun talaði Pútín um hnignandi Evrópu, sem er í takt við orðræðu Trumps í nýlegu viðtali, þar sem bandaríski forsetinn hraunaði yfir „hnignandi“ Evrópu.

Rússar virðast sjá tækifæri í því að reka fleyg milli Bandaríkjanna og Evrópu.


Segjast enn stjórna Kúpíansk, sem Selenskí heimsótti

Þegar kemur að innrásinni í Úkraínu sagði Pútín, eins og hann og aðrir hafa ítrekað sagt á undanförnum vikum, að Rússar myndu ná fram markmiðum sínum. Þau markmið virðast vera Donbas-svæðið, þeas Lúhansk og Dónetsk, auk Sapórisjía og Kherson. Af þessum fjórum héruðum stjórna Rússar einungis Lúhansk að fullu.

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands sló á svipaða strengi í nýlegu viðtali og sagði að það að gefa eftir þegar kæmi að þessum markmiðum myndi grafa undan fullveldi Rússlands.

Sjá einnig: Heimta enn héruð Úkraínu sem þeir halda ekki

Pútín hélt því einnig fram að Rússar hefðu hernumið rúmlega þrjú hundruð byggðir í Úkraínu á árinu og væru hægt og rólega að gera útaf við úkraínska herinn.

Á fundinum sagði Andrei Belousov, varnarmálaráðherra, að Rússar hefðu fulla stjórn á bæjunum Kúpíansk og Síversk, en samkvæmt hópum sem vakta átökin í Úkraínu er hvorugt rétt. Rússar hafa verið að sækja fram í Síversk en enn er barist um borgina.

Þá höfðu Rússar lagt undir sig stóra hluta Kúpíansk og í nóvember lýsti varnarmálaráðuneytið því yfir að borgin hefði verið hernumin. Úkraínumenn virðast þó hafa rekið Rússa frá borginni, að mestu, og heimsótti Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, Kúpíansk í síðustu viku.

Rússar stjórna um fimmtungi af Úkraínu, að Krímskaga meðtöldum, en áætlanir gera ráð fyrir að Rússar hafi hernumið allt að eitt prósent af Úkraínu á þessu ári. Ráðamenn í Rússlandi halda því þó ítrekað fram að sigur þeirra sé óhjákvæmilegur og því sé fásinna fyrir önnur ríki að standa við bak Úkraínumanna.

Friður í Úkraínu beintengdur friði í Evrópu 

Í friðarviðræðum sem hafa átt sér stað að undanförnu hafa Bandaríkjamenn þrýst á Úkraínumenn að gefa eftir landsvæði fyrir frið og hefur sérstaklega verið vísað til Dónetsk-héraðs. Úkraínumenn stjórna enn stórum hluta þess og er það svæði talið mjög víggirt. Rússar hafa í um eitt og hálft ár reynt að ná borginni Pokrovsk úr höndum Úkraínumanna en fall borgarinnar virðist nærri, eins og hefur verið undanfarna mánuði.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í gær að bandarískir erindrekar hefðu heitið því að land þar sem Rússar hefðu búið um aldir yrði aftur hluti af Rússlandi. Hann var þar líklega að vísa til Donbas-svæðisins.

Úkraínumenn telja sig ekki geta gefið eftir landsvæði sem myndi seinna meir gera Rússum auðveldara að gera nýja innrás í og sigra Úkraínu. Því þurfi Úkraínumenn góðar og traustar öryggistryggingar gegn frekari árásum Rússa.

Sjá einnig: Úkraína fái tryggingar sem jafngilda 5. greininni

Leiðtogar Evrópuríkja sem standa við bak Úkraínumanna segjast vilja standa vörð um alþjóðasamþykktir og standa gegn landvinningum Rússa. Þeir óttast þó einnig að samkomulag sem þykir halla of mikið á Úkraínumenn eða sigur Rússa muni á endanum leiða til stærra stríðs í Evrópu.

Eins og fram kemur í grein Wall Street Journal eru Rússar í þeirri stöðu að geta komið út úr stríðinu með mun umfangsmeiri hergagnaframleiðslu en áður og mögulega þá mestu í Evrópu. Þar að auki geti ráðamenn í Rússlandi verið sannfærðir um að þeir geti breytt landamærum Evrópu með valdi.

Sigur Rússa í Úkraínu er þannig talinn geta þvingað ríki Evrópu til að auka fjárútlát til varnarmála til muna, með því markmiði að reyna að koma í veg fyrir átök í framtíðinni.

WSJ hefur eftir Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, að örlög Úkraínu séu beintengd framtíð Evrópu. Ef ekki takist að tryggja varanlegan og réttlátan frið í Úkraínu sé ekki hægt að tryggja frið í Evrópu.

Samkomulag sem hélt ekki

Árið 1994 skrifuðu ráðamenn í Rússlandi, Úkraínu, Bandaríkjunum og í Bretlandi undir Búdapest-samkomulagið. Þá létu Úkraínumenn af hendi kjarnorkuvopn og sprengjuflugvélar frá Sovétríkjunum og sendu til Rússlands.

Í staðinn hétu ráðamenn í Rússlandi því að virða fullveldi Úkraínu og landamæri ríkisins og hétu þeir því einnig að beita aldrei valdi gegn Úkraínu, hvorki hernaðarlegu né efnahagslegu.

Bandaríkjamenn og Bretar hétu því að tryggja að samkomulaginu yrði framfylgt. Ljóst er að þær tryggingar héldu ekki og er sú reynsla sögð hafa áhrif á þankagang Úkraínumanna í dag.

Meint loforð um útvíkkun NATO

Ráðamenn í Rússlandi og málpípur þeirra hafa ítrekað sakað NATO um að bera ábyrgð á stríðinu. Oft hafa þeir vísað til þess að Rússum eigi að hafa verið lofað að NATO myndi ekki hleypa ríkjum Austur-Evrópu inn í bandalagið, sem er ekki rétt.

Oftast er vísað til ummæla James A. Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem á að hafa lofað Míkhaíl Gorbatsjov, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, eftir að Berlínarmúrinn féll, að NATO myndi ekki fara „eina tommu“ inn í Austur-Evrópu.

Hið rétta er að Baker sagði þetta við ráðamenn í Sovétríkjunum í viðræðum yfir 1990-91 um sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands, áður en Sovétríkin féllu. Þá var verið að tala um að NATO myndi ekki senda hermenn inn í Austur-Þýskaland fyrr en síðasti hermaður Sovétríkjanna væri farinn þaðan og átti það ekki að gerast fyrr en í lok ársins 1994.

Fáni Sovétríkjanna var dreginn að húni við Kreml í Moskvu í síðasta sinn þann 25. desember 1991. Í viðræðunum sem Baker kom að var aldrei talað um að leyfa ríkjum Austur-Evrópu að ganga inn í NATO eða ekki, því Varsjárbandalagið var enn við lýði.

Baker hefur sagt að ummæli sín hafi verið tekin úr algeru samhengi og eins og bent er á í frétt New York Times, tók Gorbatsjov einnig á sínum tíma undir það að aðild ríkja Austur-Evrópu að NATO hafi ekki verið til umræðu.

Þá má vísa til ummæla Pútins frá 2002, þegar hann var spurður út í mögulega aðild Úkraínu að NATO. Þá sagði hann það í raun ekki koma Rússlandi við. Það væri á milli NATO og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×