Erlent

Sex um borð í einka­þotu sem hrapaði

Lovísa Arnardóttir skrifar
Töluverður viðbúnaður er á vettvangi.
Töluverður viðbúnaður er á vettvangi. Vísir/AP

Sex voru um borð í einkaflugvél sem brotlenti í lendingu á Statesville-flugvellinum í North-Carolina í Bandaríkjunum. Samkvæmt erlendum miðlum var kappakstursmaðurinn Greg Biffle um borð ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum. Það hefur þó ekki verið staðfest. 

Í frétt ABC segir að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafi staðfest að sex hafi verið um borð í vélinni sem var af tegundinni Cessna C550. Í fréttinni segir að ekki sé vitað hvað varð til þess að vélin hrapaði en flugvöllurinn í Statesville er lokaður.

Í frétt BBC segir að Darren Campbell, sýslumaður í Iredell-sýslu, staðfesti við AP fréttaveituna að manntjón hafi orðið en neitaði að segja hversu margir hefðu látist.

Vélin í eigu Biffle

Skráningarupplýsingar flugvélarinnar bendi þó til þess að hún sé í eigu einkafyrirtækis sem tengist Greg Biffle. Þar er einnig haft eftir John Ferguson, flugvallarstjóra Statesville-flugvallar, að flugvélin hafi verið alelda þegar hann kom á vettvang.

Biffle keppti í kappakstri. Ekki hefur verið staðfest að hann hafi verið um borð í vélinni. Vísir/Getty

Lögregluyfirvöld hafa ekki gefið út hversu margir eru látnir eða að Biffle og fjölskylda hans hafi verið um borð en bandaríski þingmaðurinn Greg Hudson birti færslu á samfélagsmiðlinum X þar sem hann harmaði andlát fjölskyldunnar.

„Þau voru vinir sem lifðu lífi sínu með það að markmiði að hjálpa öðrum. Greg var mikill NASCAR-meistari sem gladdi milljónir aðdáenda. En hann var líka einstök manneskja og hans verður minnst fyrir þjónustu sína við aðra jafn mikið og fyrir óttaleysi sitt á brautinni. Biffle-hjónin flugu hundruð björgunarferða í vesturhluta Norður-Karólínu eftir fellibylinn Helene,“ segir hann í færslunni.

Færsla þingmannsins. X

Þotan fór í loftið um klukkan 10:06 að staðartíma og var stutt í loftinu áður en slysið varð. Hún hrapaði á austurenda flugbrautarinnar og yfirvöld hafa enn engar upplýsingar um orsök slyssins. Í fréttinni segir að atvikið verði rannsakað og að rannsóknarteymi verði komið á flugvöllinn á fimmtudagskvöldið.

Statesville-svæðisflugvöllurinn (KSVH) er í eigu Statesville-borgar, sem er um 45 mínútur norður af Charlotte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×