Innlent

Fylgi stjórnar­flokkanna dalar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Samfylkingin mælist enn stærst en fylgi Flokks fólksins hefur hjaðnað úr tæpum 14 prósentum í Alþingiskosningunum í fyrra í 5,5 prósent.
Samfylkingin mælist enn stærst en fylgi Flokks fólksins hefur hjaðnað úr tæpum 14 prósentum í Alþingiskosningunum í fyrra í 5,5 prósent. Vísir/Anton Brink

Miðflokkurinn mælist með tæplega 22 prósenta fylgi í nýjum þjóðarpúlsi Gallup en hann bætir rúmum tveimur prósentustigum við sig milli mánaða. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna fellur um fjögur prósentustig frá síðasta þjóðarpúlsi og mælist nú 47 prósent.

Ríkisútvarpið greinir frá niðurstöðum nýjasta þjóðarpúls Gallup. Þar er bent á að samkvæmt þeim myndi Miðflokkurinn tvöfalda þingmannafjölda ef gengið yrði til kosninga í dag, en flokkurinn hlaut tólf prósenta fylgi í Alþingiskosningunum í nóvember 2024.

Samfylkingin mælist með mest fylgi flokka, eða tæpt 31 prósent. Á eftir Miðflokknum kemur Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist með tæp 17 prósent.

Fylgi Viðreisnar dalar mest frá síðasta þjóðarpúlsi og mælist 10,9 prósent, tæpum tveimur prósentustigum minna en í síðasta þjóðarpúlsi.

Flokkur fólksins mælist með 5,5 prósenta fylgi og Framsókn með 5,2 prósenta fylgi. Til þess að ná manni inn á þing í kosningum þarf flokkur að ná minnst fimm prósentum atkvæða.

Vinstri græn og Píratar mælast með um 3,5 prósenta fylgi og fylgi Sósíalistaflokksins mælist 1,6 prósent.

Niðurstöður þjóðarpúls Gallup eru í líkingu við niðurstöður nýjustu könnunar Maskínu, sem bárust fyrir viku síðan. Þar mældist Samfylkingin með 28,9 prósent, Miðflokkurinn með 19,2 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn með 15,1 prósent. Fylgi Viðreisnar mældist 13,3 prósent í könnun Maskínu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×