Körfubolti

Jókerinn fer já­kvæður inn í nýja árið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nikola Jokic kom vel út úr myndatöku vegna meiðsla sem hann varð fyrir í fyrradag. 
Nikola Jokic kom vel út úr myndatöku vegna meiðsla sem hann varð fyrir í fyrradag.  Justin Edmonds/Getty Images

Betur fór en á horfðist með meiðsli Nikola Jokic, miðherja Denver Nuggets í NBA deildinni. Hann verður þó frá í að minnsta kosti fjórar vikur.

Jókerinn, sem hefur þrisvar verið valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar og þykir líklegur til að vinna verðlaunin aftur í ár, fór meiddur af velli í fyrradag og gekkst undir rannsóknir í gær.

Óttast var að Serbinn, sem sárasjaldan glímir við meiðsli, hefði slitið krossband í hnénu og yrði frá út tímabilið, en myndataka leiddi í ljós að ekkert er slitið.

Stuðningsmenn Denver Nuggets geta því andað léttar og hlakkað til þess að sjá sinn besta leikmann stíga aftur út á gólf síðar á þessu tímabili.

Talið er að Jokic verði frá í um fjórar vikur en hann er að eiga sögulega gott tímabil, með 29.6 stig, 12.2 fráköst og 11 stoðsendingar að meðaltali í leik, og gæti orðið sá fyrsti í NBA deildinni til að hitta úr 60 prósent af tveggja stiga skotum og 40 prósent af þriggja stiga skotum sínum yfir heilt tímabil.

Liðið er í þriðja sæti vesturdeildar NBA en mátti ekki við þessum meiðslum því nú þegar eru þrír byrjunarliðsmenn meiddir, þeir Christian Braun, Aaron Gordon og Cameron Johnson.

Þetta er í fyrsta sinn á ferli Jokic sem hann verður frá vegna meiðsla í meira en fimm leiki. Ef hann missir af meira en fimmtán leikjum er hann ekki lengur gjaldgengur til að verða valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×