Körfubolti

Þórir: Það eru bara allir að berjast

Árni Jóhannsson skrifar
Þórir Guðmundur á fleygiferð.
Þórir Guðmundur á fleygiferð. Vísir/Diego

KR vann góðan sigur í 13. umferð Bónus deildar karla fyrr í kvöld. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var virkilega góður og leiddi sína menn til sigurs. Hann horfir bjartsýnn fram á veginn og er þakklátur fyrir sigurinn.

Þórir var spurður út í byrjun sinna manna en það leit út fyrir að Ármann væri efsta liðið en ekki neðsta í byrjun leiks og í raun og veru allan fyrri hálfleikinn.

„Þetta var ekki okkar besta frammistaða. Við komum mjög flatir út og þeir bara gerðu það sem þeir vildu í fyrsta leikhluta. Skoruðu einhver 38 stig á okkur og það var ekki nógu gott. Þeir fóru með verðskuldaða forystu inn í hálfleik og við þurftum aðeins að breyta til í varnarleiknum og sem betur fer stigum við upp og gerðum það sem þurfti. Ég er bara sáttur við að hafa unnið leikinn.“

Segir þessi leikur Þóri eitthvað um KR liðið?

„Segir manni bara helling um þessa deild. Ef maður mætir ekki klár þá er manni refsað, alveg sama hvaða lið maður er að spila við. Ármann mætti bara mikið klárari en við. Við svöruðum, komum til baka, sýndum karakter og það er gott. Jákvætt að við höfum unnið. Það er mikið prógramm framundan og gott að hafa unnið þennan eftir grátlegt tap í síðustu umferð.“

KR er á landamærum úrslitakeppninnar þessa stundina og var Þórir spurður út í það hvernig hann sæi tímabilið hjá KR þróast.

„Það er kannski of snemmt að tala um lokin á deildarkeppninni núna en við sjáum bara úrslitakeppnina. Það eru bara allir að berjast, það er pakki fyrir ofan okkur og pakki þar sem við erum og við ætlum að koma okkur í pakkann fyrir ofan okkur. Við ætlum í úrslitakeppnina en það er líka bikarleikur á mánudaginn og fullt af fjöri framundan.“

Þórir var stigahæstur KR-inga með 28 stig. Hann leiddi sína menn áfram, sérstaklega í seinni hálfleik og var spurður hvort hann hafi breytt einhverju í sínum leik.

„Ég varð áræðnari, ákvað að keyra meira á körfuna. Þeir voru svolítið að gefa það. Ég var samt með of mikið af töpuðum boltum og fullt sem við getum lagað eftir þennan leik. Tökum bara sigurinn og höldum áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×