Skoðun

Er skóli án að­greiningar barn síns tíma?

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Undanfarna áratugi hefur verið unnið eftir hugmyndafræði „skóla án aðgreiningar“ í íslenska menntakerfinu. Hugmyndafræðin var og er falleg og þeir sem stóðu að innleiðingu skóla án aðgreiningar vildu sannarlega vel. Fyrirkomulagið hefur engu að síður ekki gengið nægjanlega vel upp. Skólarnir hafa ekki fengið nægjanlegt fjármagn til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Til að mynda hefði þurft að ráða fleiri þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, sálfræðinga og annað aðstoðarfólk til að styðja við kennara og þá nemendur sem þarfnast sérúrræða og útfærða kennslu að þeirra þörfum.

Allt of oft hafa foreldrar barna sem þarfnast sértækra úrræða af einhverjum ástæðum stigið fram og lýst því að börnum þeirra líði ekki nógu vel í almennum hverfisskóla. Hluti þessara barna er af erlendum uppruna og mislangt komin með að læra íslensku eins og foreldrar þeirra. Dæmi eru um foreldra sem grátbiðja um pláss í sérskólum þegar ljóst er að börn þeirra eru ekki að blómstra í fjölmennum bekk í hverfisskólanum. Klettaskóli og Brúarskóli eru sérskólar sem eru löngu sprungnir og í þá hefur verið langur biðlisti árum saman.

Ef barni líður illa í skólanum eru sterkar líkur á að barnið nái ekki að nýta færni sína og getu að fullu. Börn sem eru í þessum aðstæðum segjast oft ekki skilja námsefnið og eiga erfitt með að fylgja fyrirmælum. Stundum má rekja vanlíðan þeirra til stríðni, eineltis, einangrunar og jaðarsetningar. Vert er að nefna að í lögum um grunnskóla og í aðalnámskrá er skýrt tekið fram að nemendur eigi rétt á að námsþörfum þeirra sé mætt í almennum skóla án tillits til líkamlegrar eða andlegrar getu (lög um grunnskóla nr. 91/2008).

Álag á börn, foreldra og kennara

Öll börn þarfnast umhyggju, hlýju og hvatningar á heimilinu, í skólanum og í tómstundum. Þau þarfnast samveru, öryggis og vináttu. Börnum sem ætlað er að stunda nám í aðstæðum sem ekki henta þeim eiga á hættu að missa sjálfstraust, þau ná ekki að tengjast öðrum krökkum og upplifa sig jafnvel týnd í bekknum. Sérhver einstaklingur þarf að geta verið hann sjálfur í skólanum og skólatengdum aðstæðum þar sem hann getur notið sín til fulls, fundið til sín og eignast vini.

Margt hefur vissulega gengið vel í skólakerfi okkar og sem betur fer líður stærstum hluta barna vel í skólanum sínum. Á hinn bóginn er tímabært að skoða hvað mætti fara betur og gera nauðsynlegar breytingar til að börn með sérþarfir geti einnig átt ánægjulega og farsæla skólagöngu.

Flokkur fólksins og börnin

Við í Flokki fólksins viljum mæta náms- og félagslegum þörfum allra barna. Skólakerfið þarf að geta mætt nemendum sem þarfnast sérúrræða hvort sem það er í almennum skólum eða í sérskólum. Inga Sæland formaður Flokks fólksins stofnaði flokkinn á sínum tíma beinlínis til að bæta aðstæður barna sem búa við fátækt eða aðrar hindranir á þroskabrautinni. Hún er því rétt kona á réttum stað nú þegar hún hefur tekið við embætti mennta- og barnamálaráðherra. Hún hefur þegar boðað breytingar í samstarfi við skólasamfélagið, sveitarfélög, foreldra og ekki hvað síst börnin sjálf.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×