Innlent

Leggja af­nám áminningarskyldu fyrir þingið

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Vilhelm

Afnám áminningarskyldu opinberra starfsmanna er meðal frumvarpa sem lagt verður fyrir þingið nú í vor. Fjármála- og efnahagsráðherra talar fyrir breytingunum sem hlutu harða gagnrýni verkalýðsfélaga.

Á þingmálaskrá Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, er frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Breytingarnar felast í afnámi áminningarskyldu sem undanfara uppsagnar. 

Afnám áminningarskyldunnar er meðal sextíu tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar en með breytingunni myndi myndast meiri sveigjanleiki fyrir ríkisstofnanir til að mæta breyttum aðstæðum. Ráðuneytið telur að breytingin samræmist ekki markmiðum laganna um bætta þjónustu við almenning. 

Frumvarpið sjálft liggur ekki fyrir en áformin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun september 2025. Þar hlutu þau harða gagnrýni af hálfu ASÍ, BHM, BSRB, Fíh og KÍ. Meðal röksemdarfærslna er að fyrirhugaðar breytingar feli í sér einhliða skerðingu á réttindum launafólks.

Niðurstöður rannsóknar Maskínu sýna að um 48 prósent opinberra starfsmanna eru hlynnt afnámi áminningarskyldu ríkisstarfsmanna en 32 prósent andvíg.

Samkvæmt þingmálaskrá eru einnig lagðar til breytingar á ákvæðum starfsmannalaga um setningu í embætti, lausn frá embætti, auglýsingaskyldu og greiðsludag launa.


Tengdar fréttir

Nýtt vopn í búri fjármálaráðherra

Ef breyta á lögum um áminningarskyldu ætti sú umræða heima í kjaraviðræðum opinberra starfsmanna, að mati forseta ASÍ. Hann segir að ný könnun Maskínu, sem sýnir að meginþungi opinberra starfsmanna vilji afnema áminningarskyldu, sé vopn í höndum fjármálaráðherra.

Meirihluti vill afnema áminningarskyldu

Um 48 prósent opinberra starfsmanna eru hlynnt afnámi áminningarskyldu ríkisstarfsmanna en aðeins um 32 prósent eru andvígir afnámi hennar, samkvæmt nýrri könnun. Á sama tíma eru um 54 prósent landsmanna hlynnt því að áminningarskyldan sé afnumin en aðeins 23 prósent andvíg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×