Viðskipti innlent

Spá blússandi verð­bólgu næstu mánuði

Árni Sæberg skrifar
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir er starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans. Vísir/Ívar Fannar

Greiningardeild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,30 prósent á milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir mun verðbólga aukast úr 4,5 prósentum í 5,1 prósent. Janúarútsölur hafa mest áhrif til lækkunar í mánuðinum en breytingar á gjaldtöku ökutækja hafa mest áhrif til hækkunar, samkvæmt spánni. Mikil óvissa sé þó um hvernig Hagstofan tekur breytingarnar inn í verðmælingar. Deildin spáir því að verðbólga verði í kringum fimm prósent næstu mánuði. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.

Í nýrri hagsjá Landsbankans segir að verðbólga hafi sveiflast töluvert síðustu mánuði. Hún hafi minnkað úr 4,3 prósentum í 3,7 prósent í nóvember en aukist svo aftur í 4,5 prósent í desember. 

Eins og alltaf í janúar vegi hækkanir á gjaldskrám og sköttum á móti janúarútsölum og árstíðabundnum lækkunum á flugfargjöldum til útlanda. Ætla megi að breytingar á vörugjöldum bifreiða auk lækkunar á styrk til kaupa á rafbílum hafi áhrif til hækkunar í janúar. Breyting á fyrirkomulagi kílómetragjalds og niðurfelling á bensín- og olíugjöldum muni einnig hafa áhrif til hækkunar gangi spáin eftir. 

Þá telji deildin að greidd húsaleiga hækki meira en síðustu mánuði og að húsnæðiskostnaður í heild hafi nokkur áhrif til hækkunar í mánuðinum. Á móti hafi janúarútsölur og lækkun á flugfargjöldum til útlanda áhrif til lækkunar. Hagstofan birti vísitölu neysluverðs 29. janúar næstkomandi.

Í hagsjánni segir enn fremur að deildin spái því að vísitala neysluverðs hækki um 0,30 prósent í janúar, 0,76 prósent í febrúar, 0,46 prósent í mars og 0,69 prósent í apríl. Gangi spáin eftir verði verðbólga 5,1 prósent í janúar, 4,9 prósent í febrúar, 5,0 prósent í mars og 4,8 prósent í apríl. 

„Spáin er töluvert hærri en síðasta spá, en það skýrist að langmestu leyti af meiri hækkun á verði nýrra bíla en við gerðum ráð fyrir í síðustu spá.“

Greiningardeild Arion banka spáir því að verðbólga fari í fimm prósent þegar næsta mæling verður birt, líkt og Innherji fjallaði um í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×