Sport

Ráku þjálfarann eftir enn ein von­brigðin

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sean McDermott hefur sungið sitt síðasta eftir níu ár við stjórnvölinn hjá Buffalo Bills.
Sean McDermott hefur sungið sitt síðasta eftir níu ár við stjórnvölinn hjá Buffalo Bills. Jason Miller/Getty Images

Sean McDermott hefur verið látinn fara frá Buffalo Bills en tap í framlengdum leik í úrslitakeppninni um helgina varð örlagavaldur að brottrekstri hans.

McDermott hafði verið þjálfari Bills undanfarin níu ár, hann hefur átta sinnum stýrt liðinu inn í úrslitakeppnina og frá því að Josh Allen kom til félagsins fyrir sjö árum hefur liðið alltaf þótt líklegt til að vinna Ofurskálina, en aldrei tekist það.

Margir Bills-menn héldu að þetta væri árið þeirra. Krýptónít þeirra, Kansas City Chiefs, sem hafa slegið Bills úr leik fjórum sinnum á síðustu fimm árum, komst ekki í úrslitakeppnina og allt leit vel út.

Verðmætasti leikmaður deildarinnar árið 2024, Josh Allen, mun spila undir öðrum þjálfara en McDermott í fyrsta sinn á ferlinum á næsta tímabili.Joshua Bessex/Getty Images

Tap varð hins vegar niðurstaðan gegn Denver Broncos á laugardaginn. Bills tókst að snúa stöðunni við, eftir að hafa verið 23-10 undir, og knúa fram framlengingu, en leiknum lauk svo með 33-30 sigri Broncos.

„Sean hefur unnið frábært starf hjá fótboltaliðinu okkar síðustu níu tímabil, en nú teljum við réttan tíma til að endurskipuleggja, til að gefa okkur sem mestan möguleika á að koma liðinu upp á næsta stig“ sagði Terry Pegula, eigandi Bills, en framkvæmdastjórinn Brandon Beane mun fara fyrir leitinni að nýjum þjálfara.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×