Skoðun

Happa­fengur í Reykja­vík

Hjálmar Sveinsson skrifar

Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík fer fram á morgun, laugardaginn 24 janúar. Margt gott fólk hefur boðið sig fram til að verða kjörnir fulltrúar Reykvíkinga og fylgja stefnu jafnaðarmanna næstu fjögur árin. Það er fagnaðarefni, enda er mikið í húfi. Einn frambjóðendanna er Birkir Ingibjartsson arkitekt og verkfræðingur. Hann er ástríðufullur áhugamaður um uppbyggingu borgarinnar og mannlífið sem blómstrar í þéttum og vel skipulögðum borgum. Hann býr yfir umtalsverðri þekkingu og er auk þess bæði hugmyndaríkur og hugrakkur. Hann er að mínum dómi sannkallaður happafengur fyrir Samfylkinguna og alla Reykvíkinga. Ég styð hann heilshugar og vona að sem flestir geri það.

Reykjavík er á mikilvægu umbreytingarskeiði. Aðalskipulag borgarinnar 2040 felur í sér þá stefnu að í stað sífelldrar útþenslu byggðarinnar, og tilheyrandi umferðateppum, byggist borgin upp inn á við. Við það styttast vegalengdir milli manna, milli heimilis og vinnu og leiðin út í búð. Þétting byggðarinnar er forsenda þess að hverfin sem við búum í séu sjálfbær. Að það sé stutt í alla þjónustu. Það er líka meira stuð í þéttum borgum en dreifðum. Það er einfaldlega meira gaman að vera saman en sundur.

Skilvirkar og vistvænar samgöngur eru lykilatriði í skipulaginu. Undanfarin ár hafur verið lagt þéttriðið net hjólreiðastíga um borgina Eftir örfá misseri eigum við Reykvíkingar þess kost að fara hratt á milli staða á helstu stofnleiðum með nýju hraðvagnakerfi sem kallast Borgarlína og keyrir eftir sérakreinaum. Framkvæmdir eru hafnar við fyrstu lotu kerfisins sem er 17 kílómetrar. Hún liggur frá Hamraborg í Kópavogi, yfir Fossvogsbrú, framhjá HR og HÍ, gegnum miðborgina upp Hverfisgötu og Suðurlandsbraut og upp á Ártúnshöfða.

Ekkert af þessu gerist af sjálfu sér. Ég treysti engum betur en Birki Ingibjartssyni til að tala fyrir þessum mikilvægu verkefnum næstu misserin. Áfram Birkir, áfram Reykjavík.

Höfundur er fráfarandi borgarfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×