Skoðun

Hagur okkar allra

Sigurjón Þórðarson skrifar

Það er forgangsmál hjá ríkisstjórninni að endar nái saman í útgjöldum og tekjum ríkissjóðs og stefnt hallalausum fjárlögum á næsta ári.

Oft er fjallað um ríkisfjármálin eins og engin verðmætasköpun eigi sér stað hjá hinu opinbera líkt og hjá einkageiranum. Það er ekki rétt. Menntakerfið stuðlar til að mynda að verðmætri þekking og færni til framtíðar. Heilbrigðiskerfið viðheldur og bætir heilsu þjóðarinnar en án hennar er flest annað lítils virði.

Réttarvörslu- og eftirlitskerfi hins opinbera tryggja öryggi og réttindi borgaranna og vart þarf að fjölyrða um gagnsemi samgangna. Engu að síður verður hið opinbera að sníða sér stakk eftir vexti, meðal annars til að stuðla að lægri vöxtum og draga úr þenslu.

Fjölmargar áskoranir blasa við í rekstri ríkisins. Umfangið á rekstri ríkisins skiptir alltaf máli og hefur áhrif á þjóðarbúskapinn í heild. Þess vegna þarf alla tíð að huga umfangi ríkisútgjalda. Á hverjum tíma þarf að velta fyrir sér á hvaða verkefnum ríki og sveitarfélög eigi að bera ábyrgð á og með hvaða hætti er best að standa að einstökum verkefnunum.

Er það til dæmis hlutverk hins ríkisins að styðja hagsmunafélög, reka fjölmiðla, styðja við trúarbrögð, lífsskoðunarfélög, styrkja atvinnurekstur, íþróttastarf, selja vímuefni og þá hvernig?

Ekki endilega tengsl milli útgjalda og árangurs

Á gagnlegum fundi fulltrúa fjárlaganefndar Alþingis með sérfræðingum OECD var farið yfir leiðbeiningar eða vegvísi að bættum rekstri og fjárlagagerð. Lögð var áhersla á gagnvirkt samtal þings, fjármálaráðuneytis og almennings um hvernig ná megi árangri, meðal annars með því að greina útgjöld eftir málefnasviðum. Mælt var með að fundir fjárlaganefndar yrðu opnir eða í beinni útsendingu. Færa má gild rök fyrir að það geti aukið traust og gagnsæi.

Skortur á gagnsæi og jafnræði við sölu og úthlutun ríkiseigna og úthlutun tímabundins afnotaréttar af nýtingu sameiginlegra auðlinda Íslendinga hefur verið til vansa. Nú er unnið að því að bæta þar úr.

Ef vandaðar kerfisbundnar greiningar gefa til kynna að ákveðin starfsemi sé ekki að skila ávinningi vegna óskilvirkni, ætti að vera í forgangi að auka skilvirkni áður en auknu fjármagni er veitt í þá starfsemi.

Í umræðunni á fundi OECD kom fram að hagræðing gerðist ekki sjálfkrafa við sameiningu stofnanna. Áður en farið væri í sameiningar væri mikilvægt að móta mælanleg viðmið og skapa áhuga fyrir væntanlegum breytingum. Alltaf væri nauðsynlegt að spyrja hvort verkefni sem ríkið sinnir ætti ef til vill fremur heima hjá sveitarfélögum eða í einkarekstri.

Það eru möguleikar og tækifæri til að gera betur í umfangsmiklum rekstri ríkisins. Útgjöld ríkissjóðs verða um 1.700 milljarðar á þessu ári og til mikils að vinna að vel sé farið með. Til að ná árangri er mikilvægt að nálgast verkefnið með jákvæðum hætti, til dæmis með ríkari samvinnu við almenning. Það er hagur okkar allra að rekstur ríkissjóðs sé skilvirkur og stuðli að vexti og viðgangi þjóðfélagsins og skili árangri. Það er hagur okkar allra.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins og formaður fjárlaganefndar.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×