Leik lokið: Valur - Haukar | Fimm í röð hjá Haukum

Siggeir Ævarsson skrifar
Amandine Justine Toi var frábær fyrir Hauka í kvöld.
Amandine Justine Toi var frábær fyrir Hauka í kvöld. Vísir/Pawel

Valskonur tóku á móti Íslandsmeisturum Hauka í Bónus-deild kvenna í kvöld en fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í 4. og 5. sæti í þéttum pakka í efri hluta deildarinnar en Haukar slíta sig frá Val eftir leik kvöldsins sem lauk með 90-97 sigri Hauka.

Eftir nokkuð flata byrjun á tímabilinu hafa Haukar verið að sækja í sig veðrið og voru með fjóra sigra í röð fyrir leikinn og héldu uppteknum hætti í kvöld. Gestirnir náðu fljótt upp smá forskoti og leiddu með ellefu eftir góða lokarispu í fyrsta leikhluta.

Alyssa Cerino hóf annan leikhluta með látum og setti átta stig í röð. Þá rönkuðu Haukar við sér og héldu muninum um það bil í tíu stigum og í hálfleik munaði aftur ellefu stigum, staðan 42-53 og Haukar í bílstjórasætinu fram að þessu.

Valskonur komu mjög einbeittar út í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu níu stig hálfleiksins án svars. Emil tók leikhlé í stöðunni 51-53. Heimakonur komus svo yfir í stöðunni 55-54 en þá fór Eyjólfur loks að hressast og á sama tíma virtust Valskonur missa einbeitinguna, þá sérstaklega varnarmegin, og fengu á sig nokkrar ódýrar körfur. Staðan 65-73 fyrir lokasprettinn.

Haukar voru með pálmann í höndunum þegar þær ýttu muninn upp í tíu stig í upphafi fjórða leikhluta en Valskonur neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í þrjú stig í kjölfarið. Þær komust þó ekki nær og ég set spurningamerki við nokkrar ákvarðanir í sóknarleik Vals í lokin en skotin voru bara engan vegin að detta á ögurstundu.

Þær neituðu þó að gefast upp og minnkuðu muninn aftur í þrjú og lokasekúndur leiksins urðu æsispennandi en Haukar héldu haus og lokuðu þessum leik með sanngjörnum 90-97 sigri.

Nánari umfjöllum og viðtöl á Vísi síðar í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira