Skoðun

Að hafa það sem þarf

Ragnar Sigurðsson skrifar

Á Íslandi eru 62 sveitarfélög og jafn margar sveitarstjórnir, og sveitarstjórar. Á sviði sveitarstjórna eru ákvarðanir teknar sem hafa bein áhrif á lífsgæði og afkomu einstaklinga. Í störfum mínum sem sveitarstjórnarfulltrúi á Austurlandi hef ég líka lært að farsæld kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu veltur að langmestu leyti á getu þeirra til þess að tala saman og leysa þau margsnúnu og fjölbreyttu verkefni sem lenda á borðum sveitarstjórnarfólks í eins mikilli sátt og hægt er, stundum af þeirri ástæðu einni að við erum hreinlega of fá til þess að standa hér í rifrildum um smáatriðin.

Þrátt fyrir þá miklu ábyrgð sem hvílir á sveitarstjórnum landsins hefur sveitarstjórnarstigið, sem pólitískur vettvangur, of oft verið álitið sía, eða jafnvel stökkpallur, inn á stóra svið Alþingis. Ég gef lítið fyrir þá sýn á störf sveitarstjórnarfulltrúa. Það veit ég að Vilhjálmur Árnason gerir líka. Í störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður og formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins reyndist alþingismaðurinn Vilhjálmur mér yfirmáta vel einmitt vegna þess að hann leggur meiri áherslu á að vinna hlutina saman, en að fanga heiðurinn, athyglina eða spila pólitík. Að klára hlutina, er verkefnið.

Íslenskri þjóð hefur í gegnum árin og aldirnar vegnað best þegar við stöndum saman. Þegar við finnum það í okkur að vera sammála um megin atriðin - og takast svo á um útfærslu og framkvæmdir. Til þess að svo verði áfram þarf að velja fólk til valda sem hefur áhuga á nákvæmlega því. Fólk sem hefur áhuga á fólki, vandamálum þeirra og áhyggjum. Fólk sem langar raunverulega að gera gott og breyta rétt.

Vilhjálmur Árnason er þannig maður. Hann veit hvað verkefnið er. Hann skilur að starf sveitarstjórnarfólks er að vinna með fólki, fyrir fólk.

Á morgun hvet ég flokksfélaga mína eindregið, til þess að velja Vilhjálm Árnason sem oddvita - og leggja svo allt í sölurnar til að gera hann að bæjarstjóra Reykjanesbæjar.

Hann hefur það sem þarf.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.




Skoðun

Sjá meira


×