Innlent

Stimpilgjöld ekki afnumin í vor

Ekki er vilji hjá stjórnarflokkunum til að afgreiða frumvarp um afnám stimpilgjalda og endurfjármögnum lána á þessu þingi. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafði þó lýst stuðningi við málið. Þingmaður Samfylkingarinnar segir sárt að þetta stóra hagsmunamál fjölskyldna náist ekki. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsti því yfir í síðustu viku að verið væri að kanna hvort það væri vilji hjá stjórnarflokkunum til að styðja frumvarp Margrétar Frímannsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um að stimpilgjöld yrðu afnumin þegar fólk skuldbreytti lánum sínum vegna íbúðakaupa. Fólk sem flytur lán sín frá einni lánastofnun á aðra, til að njóta hagstæðari, kjara greiðir nú 1,5 prósent af upphæðinni í stimpilgjald til ríkisins. Skuldbreyti fólk hins vegar lánum sínum hjá sömu lánastofnun greiðir það engin stimpilgjöld og því má færa rök fyrir því að í gjaldinu felist ákveðnar samkeppnishindranir. Margrét hafði flutt frumvarp um að afnema stimpilgjöld að fullu en tekið húsnæðislánin út fyrir sviga í hliðarfrumvarpi til að ná breiðar samstöðu. Málið hefur nú verið slegið af. Þingkonan segir ástæðurnar ekki virðast vera neinar, nema þá að frumvarpið sé merkt stjórnarandstæðingi. Alla vega hafi ekki nein rök verið færð fyrir því að afgreiða ekki frumvarpið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×