Zidane aftur í franska landsliðið

Franska goðsögnin Zinedine Zidane hjá Real Madrid kom fótboltaheiminum í opna skjöldu í dag þegar hann tilkynnti endurkomu sína í franska landsliðið, um ári eftir að hann tilkynnti að hann væri endanlega hættur að leika með liðinu. Claude Makelele, miðjumaður Chelsea hefur einnig boðið þjónustu sína í landsliðið en hann hafði einnig sagt skilið við landsliðið. Nú á að blása í herlúðra hjá Frökkum sem stefna á að komast á HM í Þýskalandi næsta sumar en þeir eru sem stendur í 4. sæti í riðli 4 í undankeppni HM. Þeir eru þó ekki nema 3 stigum frá toppliði Íra og eiga meira að segja leik til góða en greinilegt er að það örlar á örvæntingu í herbúðum þessara fyrrverandi heimsmeistara.