Enski boltinn

Hermann í ljótasta liði ársins

Hermann Hreiðarsson og Craig Bellamy eru báðir í ljótasta liði ársins í ensku úrvalsdeildinni
Hermann Hreiðarsson og Craig Bellamy eru báðir í ljótasta liði ársins í ensku úrvalsdeildinni NordicPhotos/GettyImages

Það er ekkert nýtt undir sólinni í knattspyrnuheiminum og nú hefur íslenski landsliðsmaðurinn Hermann Hreiðarsson orðið þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera valinn í úrvalslið ljótustu leikmanna í ensku úrvalsdeildinni að mati vefsíðu sem hefur útlit knattspyrnumanna að umtalsefni.

Vefsíðan stillir upp byrjunarliði ljótustu 11 leikmanna deildarinnar með 3 menn á varamannabekk og þá er valinn ljótasti þjálfarinn. Það vekur athygli að ef tekið er mið af ljótleika leikmanna í deildinni, virðast miðjumenn vera almennt fallegri en varnar- og sóknarmenn.

Þannig er þeim Hermanni og Phil Neville stillt upp á miðjuna í þessu athyglisverða liði, en þeir eru í grunninn varnarmenn. Það verður þó að segja Hermanni til varnar, að fær fæst "ljótleikastig" allra í byrjunarliðinu ásamt Ricardo Carvalho - aðeins þrjú. Það er hinsvegar þjálfarinn sem ber höfuð og herðar yfir aðra í liðinu hvað varðar ljótleika, en hann fær fullt hús stiga - fulla 10. Næstir honum í ljótleika koma framherjarnir Peter Crouch og Marlon Harewood með 8 ljótleikastig.

Liðið er skipað eftirtöldum leikmönnum og innan sviga er fjöldi ljótleikastiga:

Í marki stendur Paddy Kenny frá Sheffield United (7), varnarmenn eru Peter Ramage Newcastle (7), Anton Ferdinand West Ham (6), Ricardo Carvalho (3) og Wes Brown Man Utd (4). Miðjumenn eru Hermann Hreiðarsson Charlton (3) og Phil Neville Everton (7). Framherjar Craig Bellamy Liverpool (7), David Thompson Portsmouth (5), Peter Crouch Liverpool (8) og Marlon Harewood (8).

Varamenn eru Claus Jensen Fulham (4), Antoine Sibierski Man City (3) og James Milner Newcastle (5). Þjálfari er eins og áður sagði Ian Dowie hjá Charlton með fullt hús (10).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×