Viðskipti erlent

Virgin Atlantic flýgur inn úr góðu ári

Sir Richard Branson, meirihlutaeigandi Virgin Atlantic.
Sir Richard Branson, meirihlutaeigandi Virgin Atlantic. Mynd/AFP

Rekstrarhagnaður breska millilandaflugfélagsins Virgin Atlantic nam 34,8 milljónum punda, jafnvirði 5,3 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Til samanburðar nam hagnaðurinn litlum sex milljónum punda í hitteðfyrra.

5,7 milljónir farþega flugu með Virgin Atlantic á síðasta ári sem er 7,6 prósenta aukning á milli ára.

Farþegum á viðskiptamannarými fjölgaði um 22 prósent á milli ára og heldur það uppi góðri afkomu flugfélagsins, að sögn breska ríkisútvarpsins (BBC). Útvarpið bætir því sömuleiðis við að vandræði hjá British Airways í nýju álmunni á Heathrow hafi valdið gremju hjá farþegum sem horfi í tímann og hafi þeir því farið yfir til Virgin Atlantic.

Stjórnendur munu hafa hliðrað þannig til í rekstrinum að flugfélagið er eitt fárra flugfélaga á meginlandi Evrópu sem koma ágætlega inn í nýtt ár þrátt fyrir hátt eldsneytisverð og aukinn rekstrarkostnað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×