Viðskipti erlent

Kreppan mun verri í Danmörku en áður var talið

Samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu Danmerkur minnkaði landsframleiðsla landsins um 2,6% milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Hefur landsframleiðslan því lækkað um 7,2% á liðnum 12 mánuðum sem er mun meira en sérfræðingar áttu von á.

Þessi lækkun á landsframleiðslu á 12 mánuðum er sú mesta í sögu landsins að því er segir í dönskum fjölmiðlum sem fjalla um málið í morgun. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs minnkaði landsframleiðslan um 5,3% en til samanburðar gerðu greiningardeildir Nordea og Danske Bank ráð fyrir minnkun upp á 1,7% á því tímabili.

Í frétt um málið á Börsen segir að tölurnar feli í sér mikinn samdrátt í fjárfestingum og einkaneyslu en á móti komi aukning á útgjöldum hins opinbera. Þá hefur niðursveiflan í bæði út- og innflutningsgreinum landsins haldið áfram.

Fram kemur að í samanburði á öðrum ársfjórðungi nú og sama tímabili í fyrra hefur innflutningur dregist saman um 16,4% og útflutningur um 13,6%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×