Viðskipti erlent

Minnkandi eftirspurn eftir olíuborpöllum í Noregi

Minnkandi eftirspurn er nú eftir olíuborpöllum og skipum í Noregi og heldur sú þróun áfram það sem eftir er ársins að mati hagstofu Noregs. Samhliða þessu hafa norskar skipasmíðastöðvar neyðst til að lækka verð sín á olíuborpöllum og skipum.

Fjallað er um málið á vefsíðunni offshore.no. Þar kemur fram að eftirspurnin eftir olíuborpöllum og skipum hafi farið minnkandi allt þetta ár og að í augnablikinu keyri norski skipasmíðaiðnaðurinn á aðeins 80% af fullum afköstum af þeim sökum.

„Minnkandi eftirspurn og aukin samkeppni hafa verið flöskuhálsar fyrir framleiðsluna," segir í áliti norsku hagstofunnar. Þar segir einnig að stjórnendur í skipasmíðaiðnaðinum reikni með að þessi þróun haldi áfram a.m.k. í bráð. Af þeim sökum eru margir skipa- og olíuborpallaframleiðendur að draga úr umsvifum sínum.

Lækkandi verð á olíuborpöllum eru hinsvegar jákvæðar fréttir fyrir íslendinga því slíkt gerir það ódýrar að leita eftir olíu á Drekasvæðinu. Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni er talið að ein tilraunborhola á svæðinu kosti um 10 milljarða kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×