Viðskipti erlent

Skuldir settar í sölu á netinu

Fjármálakreppan hefur haft það í för með sér að svo mikið er að hjá innheimtufyrirtækjum að nú er farið að setja skuldir einstaklinga til sölu á netinu. Eina áhættan sem fólgin er í þessu fyrirkomu lagi er að skuldararnir sjálfir geta keypt skuldir sínar á útsöluverði.

Í umfjöllun um málið á DR, danska ríkisútvarpinu, segir að að einn þeirra sem sett hefur skuld til sölu á netinu er fasteignasalinn Jacob Teglovn. Honum voru nýlega dæmdar 1,1 milljón danskra kr. Vandamálið er hinsvegar að sá sem skuldar þessa upphæð er búsettur í Englandi.

„Ég er búinn að nota mikið af peningum í lögfræðinga og það eykur bara kostnað minn að halda því áfram," segir Teglovn. „En hér getur verið tækifæri á því að hagnast fyrir einhvern sem þekkir til réttarkerfisins í Englandi og getur barist fyrir þessari skuld þar í landi."

Teglovn setti sumsé skuldina til sölu á netsíðunni kunkurser.dk og er ekki einn um að gera slíkt. Netsíða þessi hefur annars aðallega sérhæft sig í sölu muna úr gjaldþrotum eða þrotabúum hvort sem um vörur, bíla eða húsmuni hefur verið að ræða. Nýlega hóf síðan svo að selja skuldir á borð við framangreinda.

Bettina Gastel hjá Auktioner A/S sem stendur á bakvið netsíðuna konkurser.dk segir að reynslan af skuldasölunni hafi verið góð hingað til. Yfirleitt fái menn 30-60% af nafnvirði skulda sinna.

Formaður sambands innheimtufyrirtækja í Danmörku, Henning Gericke, er ekki eins hrifinn af þessari sölumennsku. „Hættan er sú að skuldarinn sjálfur sitji og bjóði í eigin skuldir og fái þær á útsöluverði," segir Gericke. „Það getur varla verið ætlunin."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×