Viðskipti erlent

Viðskiptasagan: Rothschild og Freshfields tengd við þrælasölu

Tvö af stærstu nöfnum fjármálahverfisins í London, The City, Rothschild og Freshfields hafa verið tengd við þrælasölu í bresku nýlendunum. Ný söguleg gögn sem The Financial Times hefur undir höndum sýna fram á þetta.

Nathan Mayer Rothschild höfuð fjölskyldunnar á fyrrihluta 19. aldar og James William Freshfield stofnandi Freshfields þekktustu lögmannastofu The City högnuðust báðir á þrælasölu/þrælahaldi samkvæmt skjölum sem eru á breska ríkisskjalasafninu (National Archives).

Þetta gengur þvert á þá söguskoðun að þeir hafi báðir verið andstæðingar þrælahalds á sínum tíma. Heit umræða hefur verið í Bandaríkjunum um þrælahaldið undanfarin misseri þar sem báðar fjölskyldurnar reka fyrirtæki/fjármálastofnanir. Umræðan hefur snúist um skaðabætur til blökkumanna af hendi þeirra sem högnuðust á þrælahaldinu og eru enn starfandi í viðskiptalífinu.

Fjárfestingarbankinn JP Morgan hefur, sem dæmi, sett á fót 5 milljón dollara skólasjóð sem styrkja á blökkumenn til náms í Louisiana. Þetta kom í kjölfar þess að JP Morgan baðst opinberlega afsökunnar árið 2005 fyrir tengsl bankans við þrælahald/sölu á sínum tíma.

Samkvæmt fyrrgreindum skjölum hagnaðist Nathan Mayer Rothschild persónulega á því að nota þræla sem tryggingar gegn bankaláni til þrælaeiganda.

Financial Times segir að þetta komi þeim á óvart sem kunnugir eru því að Rothschild fjölskyldan skipulagði lánveitingar til breskra stjórnvalda þegar að þau ákváðu að bjarga breskum þrælaeigendum frá gjaldþroti á fjórða áratug 19. aldar. Gjaldþrotið blasti við eftir að þrælahaldið var bannað með lögum í Bretlandi og nýlendum þess.

Þetta var stærsta björgunaraðgerð í efnahagslífi Breta fyrr og síðar mæld sem hlutfall af ríkisútgjöldum. Björgunaraðgerðir til handa bresku bönkunum í núverandi fjármálakreppu munu vera vasapeningar í þeim samanburði.

Niall Ferguson prófessor í sögu við Harvard háskólann segir að hin nýju gögn sýni hversu þrælahaldið var stór hluti af og kom víða við í bresku efnahagslífi á fjórða áratug 19. aldar. Melaine Asprey skjalavörður Rothschild fjölskyldunnar segir að skjölin komi sér á óvart og hún hafi aldrei séð þessi tengsl við þrælahald áður.

Hvað Freshfield varðar sýna skjölin að hann og synir hans störfuðu fyrir þó nokkra þrælaeigendur einkum í Karabíska hafinu. Þeir störfuðu sem fjárvörslumenn þrælabúgarða og í einu tilvika reyndu þeir að krefjast ógreiddra lögfræðireikninga vegna milligöngu um fjárhagsaðstoð stjórnvalda til eins af búgarðseigendunum.

Fjölskyldurnar tvær hafa verið snöggar í viðbrögðum sínum við frásögn Financial Times af málinu. Í yfirlýsingu frá Rothschild bankanum segir m.a. að Nathan Mayer Rothschild hafi verið framarlega í röð frjálslyndra afla í baráttunni fyrir auknum réttindum breskra þegna á sínum tíma. "Með þann bakgrunn í huga eru þessar ásakanir ekki í takt við manninn sjálfan né viðskipti hans," segir í tilkynningunni.

Lögmannsstofan Freshfields Bruckhaus Deringer segir í tilkynningu að James William Freshfield hafi verið virkur meðlimur í söfnuðinum Church Missionary Society..."sem hafði á stefnuskrá sinni að uppræta þrælasöluna..."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×