Viðskipti erlent

Stada orðað við kaup á Actavis

Þýska samheitalyfjafyrirtækið Stada Arzneinmittel AG hefur hugsanlega áhuga á að kaupa Actavis ef Actavis verður selt í hlutum. Þetta kemur fram á Bloomberg-fréttaveitunni í dag.

Bloomberg vitnar í orð Hartmut Retzlaff stjórnarformann Stada á aðalfundi fyrirtækisins í gær þar sem hann sagði að Stada væri nú að athuga kaup á öðrum samheitalyfjafyrirtækjum sem áður voru talin of dýr fyrir Stada.

Retzlaff sagði að fyrirhuguð kaup á öðru samheitalyfjafyrirtæki væru nú aftur komin á borðið hjá Stada, fyrirtæki sem Stada hefði hafnað kaupum á fyrir ári síðan vegna verðmiðans sem sett var á þau.

Bloomberg segir að í þessu sambandi komi tvö fyrirtæki helst til greina, það er Actavis og þýska fyrirtækið Ratiophram sem þýska Merckle fjölskyldan hefur verið með til sölu um töluvert skeið.

Stada er sem stendur sjötta stærsta samheitalyfjafyrirtæki heimsins og er góður gangur í rekstri þess. Það býst við að skila hagnaði upp á 250 milljónir evra á þessu ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×