Viðskipti erlent

Hamleys tapaði 570 milljónum á síðasta ári

Leikfangaverslanakeðjan Hamleys skilaði tapi upp á 2,7 milljónir punda eða 570 milljónum kr. á síðasta reikningsári sem lauk í lok mars s.l. Skilanefnd Landsbankans fer nú með 63,7% hlut í Hamleys en hann var áður í eigu Baugs.

Tapið er þrátt fyrir að velta Hamleys hafi aukist úr 35,9 milljónum punda og í 44,2 milljónir á árinu. Ím frétt um uppgjörið í RetailWeek segir að vaxtagreiðslur hafi reynst keðjunni þungar í skauti á tímabilinu.

Guðjón Reynisson forstjóri Hamleys segir í samtali við RetailWeek að þeir séu ánægðir með viðbrögð sín við erfiðu efnahagsumhverfi á árinu. „Við höfum greitt skuldir okkar að fullu og á réttum tíma og njótum fulls stuðnings viðskiptabanka okkar," segir Guðjón.

Ennfremur kemur fram í máli Guðjóns að viðskiptastaða keðjunnar sé sterk og að þær ráðstafanir sem gerðar hafi verið muni gera Hamleys kleyft að vaxa og dafna áfram í framtíðinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×