Viðskipti erlent

Hver Dani tapaði 2,4 milljónum að meðaltali í fyrra

Hver Dani tapaði að meðaltali 101.000 dönskum kr. eða um 2,4 milljónum kr. af persónulegum auði sínum á síðasta ári. Tapið er að miklu leyti tilkomið vegna þess hve hlutabréf lækkuðu mikið í verði á síðasta ári.

Í umfjöllun í blaðinu Jyllands Posten um málið er vitnað í tölur frá Hagstofu Danmerkur. Þar segir að nettóeignir danskra heimila hafi rýrnað í verði um 546 milljarða danskra kr. eða um 13.000 milljarða kr. á síðasta ári. Þetta er 35% rýrnun á eignunum m.v. árið á undan.

Inni í þessum tölum er ekki tapið sem heimilin hafa orðið fyrir vegna lækkunar á verði fasteigna í Danmörku á árinu. Hinsvegar kemur fram í fyrrgreindum tölum að af heildarupphæðinni sé tap upp á 375 milljarða danskra kr. eða 54% vegna hlutabréfaeignanna.

Á sama tíma hefur heildarupphæð lána sem Danir hafa tekið hækkað verulega. Lánin jukust um 182 milljarða danskra kr. í fyrra sem samsvarar því að hver Dani hafi að meðaltali aukið skuldabyrði sina á árinu um 33.000 danskra kr. eða um tæplega 800.000 kr.

Um síðustu áramót var staðan þannig að Danir hafa aldrei skuldað meira í sögunni. Samtals námu lán til heimila og einstaklinga um 2.371 milljörðum danskra kr. Það svarar til þess að hver Dani hafi skuldað um 433.000 danskar kr. að meðaltali um áramótin eða rúmlega 10 milljónir kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×