Viðskipti erlent

Dönsk skattayfirvöld á auðæfaskaki í skattaskjólum

Dönsk skattayfirvöld eru nú að leita að leyndum auðæfum danskra ríkisborgara í skattaskjólum eða aflandseyjum víða um heiminn. Danski skatturinn reiknar með að þetta skak muni skila þeim fleiri hundruð milljónum danskra króna í ríkiskassann.

Í frétt um málið í Jyllands Posten segir að eftir að skattayfirvöld komust á snoðir um óskattlagða risabónusa sem lagðir höfðu verið inn á reikninga í skattaskjólum hefur leitin að öðrum leyndum auðæfum Dana orðið umfangsmeiri og ítarlegri.

Stór rannsókn sem beinist að millifærslum frá dönskum bankareikningum og yfir á bankareikninga í skattaskjólum og öfugt er nú hafin. Áður var skatturinn kominn í gang með umfangsmikla rannsókn á kortanotkun, sem kallast „Projekt Kreditkort", en þar eru til skoðunnar erlend kreditkort sem eru notuð óvenjulega mikið í Danmörku.

Einn af þeim sem skatturinn náði í skottið á með Projekt Kreditkort var golfstjarnan Sören Hansen. Hansen býr opinberlega í Mónakó þar sem hann er með lögheimili. Nú hefur efnahagsbrotalögreglan kært Hansen fyrir gróf skattsvik eftir ábendingu frá skattinum. Honum er gefið að sök að hafa aldrei flutt frá Danmörku í reynd heldur notað lögheimilið í Mónakó til að komast undan skattgreiðslum af tekjum sínum. Hansen þvertekur fyrir að þetta sé rétt.

Alls hefur Projekt Kreditkort þegar gefið af sér 200 skattamál og annar eins fjöldi mála er í farvatninu. Skatturinn hefur þegar sent út kröfur upp á 300 milljónir danskra kr.

Þá hefur skatturinn skoðað 300 gjaldeyrisreikninga í dönskum bönkum þ.e. reikninga sem eru án kennitölu. Reikningar þessir hafa oft verið notaðir til að taka við „launagreiðslum" frá aflandseyjum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×