Skoðun

Icesave í erlendum fjölmiðlum

Sveinn Valfells skrifar
"Bless the Icelandic people" skrifaði Financial Times í desember á síðasta ári og dáðist að því að Íslendingar hefðu hafnað Icesave II.

Ríkisábyrgð á innistæðum umfram tryggingar Tryggingasjóðs væri lagalega hæpin og alls ekki sanngjörn. Bresk og hollensk yfirvöld myndu sjálf aldrei viðurkenna kröfur erlendra innlána á allt að þriðjungi árlegrar þjóðarframleiðslu ef þarlendur banki færi í þrot.

Financial Times sagði að Íslendingar hefðu sætt „einelti" og fullyrti að afstaða Íslendinga hafi varpað ljósi á óþægileg sannindi: að stjórnvöldum þjóða væri ekki stætt á því að láta almenning borga fyrir tap einkabanka, að innstæðutryggingakerfi ESB væri ófullnægjandi, og að skiptameðferð alþjóðlegra banka væri ábótavant. Í febrúar á þessu ári skrifar Financial Times aftur um Icesave og hvetur fólk um heim allan til að fylgjast með Icesave, himinninn hafi ekki hrunið þó íslenska þjóðin hafi neitað að borga fyrir mistök bankamanna.

Síðar í febrúar fjallar Wall Street Journal einnig um Icesave. Wall Street Journal segir að Bretar og Hollendingar hafi að eigin frumkvæði ákveðið að bæta borgurum sínum skaða vegna taps á innistæðum þeirra í Landsbanka, en það sé algerlega óljóst hvers vegna Íslendingum beri að endurgreiða Bretum og Hollendingum það fé. Skiljanlegt sé ef Íslendingum finnist auðveldast að ljúka málinu núna en það réttlæti engan veginn rúmlega tveggja ára rógsherferð Breta og Hollendinga gagnvart Íslandi.

Tvö helstu dagblöð alþjóðafjármála, Financial Times og Wall Street Journal, hafa bæði lýst miklum efasemdum um framkomu Breta og Hollendinga og lögmæti krafna þeirra. Vonandi hafnar íslenska þjóðin Icesave þann 9. apríl.

 

 






Skoðun

Sjá meira


×