Skoðun

Á hvorum endanum viljum við byrja að skera af?

Davíð Már Sigurðsson skrifar

Það hefur verið reglulega ýjað að því að breyta fyrirkomulagi í fjölda kennsludaga og lengd náms á svo til öllum skólastigum. Að stytta sumarfrí og fjölga kennsludögum í grunnskólum, aukin krafa um að börn byrji fyrr á leikskólum, og þá hugmyndir um að þau myndu líka byrja fyrr í grunnskóla. Það hefur líka verið talað um að taka út 10. bekkinn og byrja fyrr í framhaldsskóla, nú og stytta hann líka. Það hefur gengið eftir í framhaldsskólunum þegar hann var styttur úr fjórum í þrjú ár 2014. En á sama tíma erum við sífellt að gera kröfur um lengra háskólanám. Er það ekki frekar öfugsnúið?

Einu sinni þótti fullgott að hafa klárað gaggó, svo þegar fram liðu tímar var stúdentinn næsti staðall, svo bakkalár og núna er lenskan að enginn sé gjaldgengur nema vera með meistaragráðu. Hvar endar það, það hafa ekki allir tíma til að verða doktorar, sem myndi auk þess útþynna virði doktorsgráðunnar. Ég er auðvitað að færa í stílinn, en þetta er samt eitthvað sem ég tel áhyggjuefni. Sérstaklega þar sem það lítur út fyrir að lengd háskólanáms sé langt frá því að vera ávísun á hærri tekjur. 

Er ekki hagkvæmara fyrir samfélagið að skila nemendum vel undirbúnum fyrr út úr skólakerfinu og þeir geti þá valið sér háskólanám seinna þegar þau eru komin með reynslu af atvinnulífinu og vita þá í alvörunni hvað þau vilja leggja fyrir sig? Eða þarf að endurskoða háskólanám svo það sé í meiri tengingu við atvinnulífið og hæft sé að sinna fullri vinnu með því? Er sjálfbært að obbi landsmanna sé í besta falli að standa upp af skólabekk hálf þrítug að aldri?

Hvað finnst ykkur, kæru lesendur?

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Hamona

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Sjá meira


×