Viðskipti erlent

Dress Up Games malar gull - 300 milljónir í hagnað á þremur árum

Dress Up Games ehf. hagnaðist um 88,3 milljónir króna á árinu 2010. Á árunum 2008 og 2009 nam hagnaður félagsins samtals um 213 milljónum króna. Það hefur því hagnast um rúmlega 300 milljónir króna á þriggja ára tímabili. Þetta kemur fram í síðustu ársreikningum Dress Up Games ehf.

Félagið á og rekur vefsíðuna dressupgames.com og hefur á undanförnum árum verið á meðal arðbærustu fyrirtækja á Vestfjörðum. Eigandi félagsins er Inga María Guðmundsdóttir.

Á vefsíðunni er tenglum á tölvuleiki þar sem dúkkulísur eru klæddar í föt safnað saman. Dress Up Games er síðan með auglýsingasamning við stórfyrirtækið Google sem tryggir því tekjur. Samningurinn virkar þannig að Google AdWords selur auglýsingar inn á síðuna og Dress Up Games ehf. fær síðan greitt fyrir hvert skipti sem einhver skoðar þá auglýsingu. Vefsíðan fær milljónir innlita, og er með tugmilljónir flettinga, í hverjum mánuði og því eru tekjurnar miklar.

Eignir Dress Up Games nema 259 milljónum króna. Um 95% þeirra eru í handbæru fé. Félagið greiddi sér auk þess út 128 milljónir króna í arð á árunum 2009 og 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×