Innlent

Hörð andstaða á þingi við að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnarandstaðan segir frumvarp utanríkisráðherra um þróunarsamvinnu illa ígrundað og í andstöðu við ráðleggingar Ríkisendurskoðunar um framkvæmd og eftirlit. Utanríkisráðherra segir breytinguna hins vegar nauðsynlega til að skerpa á stefnumótun í málaflokknum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar ræddu einir frumvarp utanríkisráðherra um flutning Þróunarsamvinnustofnunar inn í utanríkisráðuneytið og fleira í fyrstu umræðu á Alþingi í gærkvöldi. En stofnunin var sett á laggirnar árið 1981 og hefur almennt getið af sér gott orð fyrir ýmis þróunarsamvinnuverkefni sem hún hefur staðið að.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ástæður flutnings stofnunarinnar inn í ráðuneytið fyrst og fremst vera að samræma betur stefnu stjórnvalda í þróunarsamvinnumálum.

„Ég er að styrkja þróunarsamvinnu með þessu. Það er þá fleira fólk saman í liði að vinna að sömu hlutum. Við höfum sé að þetta er þangað sem önnur ríki eru að fara. Í samtölum við þau hefur komið fram að þetta er  mjög öflug leið til að efla þróunarsamvinnuna,“ segir Gunnar Bragi.

Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra gefur ekki mikið fyrir þessi rök ráðherrans en hann kannast við þrýsting frá embættismönnum á þessa breytingu.

„Þetta er yfirleitt fyrsta mál sem sérhver ráðherra fær inn á sitt borð. Þá færa embættismenn þetta í tal. Það hefur alltaf verið ákveðið viðhorf í ráðuneytinu að fá þetta inn í ráðuneytið. Fá fleiri starfsmenn. Fá meiri peninga. Mér er þetta hins vegar algerlega óskiljanleg ráðstöfun,“ segir Össur.

Enginn þrýstingur frá embættismönnum

„Nei, það er ekki nokkur þrýstingur. Ég veit svosem ekkert hvort forveri minn var mjög undanlátssamur við embættismenn. En þetta er ekki neinn þrýstingur frá þeim. Við höfum séð þetta áður lagt til þegar farið var að velta fyrir sér hvernig framtíðin ætti að vera með þróunarsamvinnuna. Þannig að þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt og ég veit ekki til þess að íslenskir embættismenn hafi verið að þrýsta á erlend ríki til að gera þetta, því þetta er þróunin á flestum stöðum,“ segir utanríkisráðherra.

Þróunarnefnd OECD hafi hvatt til þess að Íslendingar skoðuðu skipulag þessara mála og sérfræðingur sem skoðað hefði málið hafi lagt þetta til segir Gunnar Bragi.

„Þess vegna er sú leið farin. Það er ekkert annað. Það er ekki að finna í þessu neinar breytingar á áherslum t.d. á vettvangi,“ segir Gunnar Bragi.

Þá muni enginn starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar missa vinnuna við þessa breytingu sem tekur gildi um næstu áramót verði frumvarpið að lögum.

Össur Skarphéðinsson segir einmitt erfitt að finna tilganginn með breytingunum ef hún eigi hvorki að leiða til sparnaðar né fækkunar starfsmanna. Stofnunin hafi staðið sig afburðavel og fengið lof erlendra fagstofnana.

„Og það sem skiptir kannski mestu máli er að þetta er algerlega í andstöðu við þær leiðbeiningar sem Ríkisendurskoðun hefur verið að veita stjórnsýslunni á síðustu árum. Það er að segja að stefnumótun og framkvæmd eigi að vera á einni hendi en eftirlitið á annarri hendi,“ segir  Össur Skarphéðinsson. En Ríkisendurskoðun hefur verið falið að leggja mat á þessar áætlanir utanríkisráðherra.

Fyrstu umræðu um frumvarpið verður framhaldið á þingfundi sem hefst klukkan þrjú í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×