Viðskipti erlent

Trúir ekki á samkomulagið en skrifaði undir til að koma í veg fyrir stórslys

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. vísir/epa
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagði í viðtali við gríska ríkissjónvarpið fyrr í kvöld að þrátt fyrir að samkomulaginu við lánardrottna hafi verið þröngvað upp á Grikkja, þá hafi það bjargað Grikklandi frá því að yfirgefa evrusamstarfið.

Samkomulagið verði að ná fram að ganga. Grikkland sé að hans mati ekki í neinni aðstöðu til að taka aftur upp drökmuna; ekki aðeins muni bankarnir fara í þrot heldur myndi það leiða til mikilla vandamála annars staðar í samfélaginu.

„Ég axla fulla ábyrgð, á ýmsum mistökum, og á því að hafa skrifað undir samkomulag sem ég trúi ekki á, en ég skrifaði undir til að koma í veg fyrir stórslys í Grikklandi, hrun fjármálakerfisins. Nú ber mér skylda til að innleiða samkomulagið,“ sagði Tsipras.

Leitaði til Kína, Rússlands og Bandaríkjanna

Tsipras kvaðst hafa barist fyrir því laun og lífeyrisgreiðslur yrðu ekki lækkuð. Þá sagði hann þær aðgerðir í ríkisfjármálum sem samkomulagið felur í sér mun mildari en þær aðgerðir sem áður höfðu verið lagðar til. Tsipras að þetta hafi verið eina samkomulagið sem var í boði; hann hafi meðal annars leitað til Kína, Rússlands og Bandaríkjanna en þar hafi ekkert verið á boðstólnum.

Aðspurður um tilgátur þess efnis að samkomulagið á sunnudaginn hafi á einhvern hátt verið tilraun til valdaráns sagði Tsipras:

„Ég er viss um að sumir íhaldsflokkar í Evrópu yrðu ánægðir með að sjá okkar ríkisstjórn hverfa.“

Forsætisráðherrann hefur mætt mikilli andstöðu í flokki sínum, Syriza, eftir að hann kom frá Brussel til Aþenu með samkomulagið í ferðatöskunni. Kosið verður um samkomulagið á gríska þinginu á morgun og mun mikið mæða á Tsipras til að fá það samþykkt. Hann hyggst ekki segja af sér sama hvernig fer.

„Skipstjórinn getur ekki yfirgefið skipið.“

Guardian fjallaði um viðtalið „í beinni“ hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×