Viðskipti erlent

Um helmingur allra starfa gæti horfið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sjálfkeyrandi bílar sem þessi gætu kostað leigubílstjóra starfið.
Sjálfkeyrandi bílar sem þessi gætu kostað leigubílstjóra starfið. vísir/afp
Tæki með gervigreind gætu hirt 47 prósent allra starfa í Bandaríkjunum á næstu tveimur áratugum. Á þetta er bent í nýrri opinberri skýrslu frá bandaríska ríkinu.

Í skýrslunni er jafnframt bent á að þrátt fyrir að miklir möguleikar verði á auknum vexti fyrirtækja vegna aukinnar framleiðni sem hlýst af því að notast við gervigreind ógni slík þróun störfum. Langtíma­notkun gervigreindar gæti leitt til ójafnaðar í samfélaginu og aukið bilið á milli minna menntaðra og sérhæfðra.

„Áhrif gervigreindar á vinnumarkaðinn í náinni framtíð munu áfram þróast í sömu átt og tölvuvæðing og breytingar í samskiptatækni hafa ýtt þróuninni í undanfarna áratugi. Mat rannsakenda er að á milli níu og 47 prósent starfa muni tapast varanlega vegna þróunarinnar,“ segir í skýrslunni sem ber heitið Artificial Intelligence, Automation and the Economy.

Höfundar skýrslunnar líta til dæmis til starfa í samgöngum. Er þar bent á að sjálfkeyrandi tækni sé nærri tilbúin og að innan nokkurra ára gæti hún tekið yfir störf leigubílstjóra. Þá gætu skyndibitakeðjur einnig nýtt sér slíka tækni bæði til þess að elda mat og taka við pöntunum.

„Ef mat sérfræðinga stenst mun þróunin breyta lífi milljóna Bandaríkjamanna og mögulega valda þeim efnahagslegum erfiðleikum,“ segir í skýrslunni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×