Viðskipti erlent

Uber fær aftur leyfi til að starfa í London

Kjartan Kjartansson skrifar
Uber sóttist eftir endurnýjun á starfsleyfi til fimm ára í september en var hafnað.
Uber sóttist eftir endurnýjun á starfsleyfi til fimm ára í september en var hafnað. Vísir/AFP
Farveitan Uber hefur fengið tímabundið leyfi til að starfa í London. Fyrirtækinu hafði verið synjað um endurnýjun á starfsleyfi í september. Þrátt fyrir að dómari hafi úrskurðað að fyrirtækið gæti fengið leyfi á ný verður það á skilorði til fimmtán mánaða.

Samgönguyfirvöld í London úrskurðuðu að Uber væri ekki hæft til að reka akstursþjónustu í borginni í haust. Dómari sneri þeirri niðurstöðu við í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Fyrirtækið verður að uppfylla skilyrði samgönguyfirvalda til að halda leyfinu.

Sadiq Khan, borgarstjóri í London, segir að niðurstaðan réttlæti afstöðu borgaryfirvalda. Uber hafi viðurkennt að samgönguyfirvöld hafi gert rétt með að synja fyrirtækinu um endurnýjun leyfisins vegna lélegra vinnubragða þess um árabil.

Á meðal þess sem samgönguyfirvöld í London gerðu athugasemd við á sínum tíma var hvernig Uber tilkynnti um glæpi, hvernig það fengi læknisvottorð og bakgrunnsrannsóknir á ökumönnum.

Skilyrði fyrir starfsemi Uber í London fela nú í sér að ökumenn megi aðeins nota snjallforrit Uber á svæðum þar sem þeir eru með leyfi til aksturs. Þá eru skilyrði um vinnutíma þeirra hert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×